útskrifuð

Þá er ég komin heim í sveitina þar sem allt er á kafi í snjó:)

Það var rosa skýtin tilfinning að kveðja allt fólkið á Grensás...

                                                         028

Hér er mynd af mér með mínum allra besta vini sem ég kynntist á þessum ágæta stað. Hann hefur lent í ýmsu um ævina. Þetta er maðurinn sem ég hló með, djókaði með allan daginn út og inn....svo vorum við stundum svolítið stríðin. Gerðum mikið grín og sáum spaugilegu hliðina á öllum sköpuðum hlutum. Þetta er líka maðurinn sem gerði það að verkum að það bættust á mig eitt og eitt kíló vegna þess að hann fór alltaf niður í nammisjálfssala og kóksjálfssala á kvöldin og gaf mér kók og nammi...  Hann er  góður vinur og ég marglofaði honum að ég skidi koma á Grensás á nýju ári og heimsækja hann.  Ekki má gleyma því að hann var líka vekjaraklukkan mín...kl. hálf níu var bankað...BANK BANK og svo heyðist fyrir utan hurðina: Góðan daginn Hafdís mín, nú er kominn morgunmatur". Eitt skipti svaf hann yfir sig og gólaði á hjúkkurnar loks þegar hann vaknaði.....ER HAFDÍS VÖKNUÐ??? VILJIÐ ÞIÐ GÁ AÐ ÞVí FYRIR MIG...en ég var löngu vöknuð og heyrði hann segja þetta og við náttulega hlógum eins og asnar... Bara fyndinn. Hjukkunar skildu ekki neitt í neinu:)

Hjúkrunarkonurnar eru yndislegar...

des 08 224

Hér er ég með nokkrum þeirra þegar við vorum að kveðjast...:)

Við útskrift átti ég langt og gott samtal við lækninn minn...hann er alveg yndislegur, skilaði mér frá sér án þess að ég væri í nokkrum vafa um eitt né neitt.
Staðan er sú að ég hef tekið mikilum framförum. Það sem háir mér mest má eiginlega segja að séu ósýnilegu hlutirnir sem aðrir ekki sjá.  Fólk sér ekki þennan gríðarlega dofa sem ég er með og tilfinningaleysi í hendi og fæti. Ég gæti lýst því þannig að þegar ég kem við hluti með fingrum vinstri handar er í raun tilfinningin svo ónæm að það er eins og ég sé með þykka vettlinga á hendinni. Mér finnst fingurnir og tærnar mjög ónæmar. Sérstaklega fingurgómarnir...Eins með tærnar, þegar ég kom við þær þá eru þær svo ónæmar að það er eins og ég séí þykkum sokkum. Stundum finnst mér ég hreinlega ekki vera með tær, litla táin og sú við hliðina eru voða "dauðar" mjög tilfinningalausar. Kálfinn er líka voða dofinn. Mér líður eins og það sé búið að teipa hann allan mjög þröngt...þannig ónot eru í kálfanum á vinstri fæti...Já, svolítið skrýtið.
Svo sér enginn stífleikann í fætinum nema þó helst með því að ég er stundum meira haltari eina stundina en aðra. Enginn sér heldur náladofann sem ég fæ oft...Sama gildir um vinstri helming andlitsins, það er dofið og vinstri hluti tungunnar...Þetta eru tillfinningaskertir partar.
Sjónin mín, þ.e. sjónsviðið er skert eins og ég hef áður sagt og er það enn ein afleiðing þessa blóðtappa.

Það eru í rauninni þessir ósýnilegu þættir sem  eru þær afleiðingar blóðtappans sem eru hvað þrálátastar. þótt ég þurfi að leggja mig einu sinni og stundum tvisvar á dag þá er það líka allt í lagi...það er hluti af bataferlinu öllu. En þessir hlutir sem aðrir kannski ekki sjá en ég finn fyrir eru að mjatlast hvað lengst úr líkamanum og ekkert svo sem gefið að ég losni við þá. En vonin er mitt allra besta meðal og ég er líka bara vongóð. En læknirinn sagði að þótt ég liti vel út,,, úúú já hann sagði það hehhe djók...þá er ekki þar með sagt að ég sé laus allra mála. Úr þessum fylgikvillum þarf að vinna með þolinmæði og tíminn vinnur með mér í þeim málum... en ég er búin að standa mig mjög vel:) Aldrei leiðinlegt að fá svoleiðis komment. Svo fer ég strax á mánudagsmorgun í blóðprufu til Guðmundar og fer reglulega þangað í blóðprufu á  Hvolsvöll sem sagt. Það er búið að finna réttan blóðþynningaskammt handa mér en það verður að fylgjast vel með. Mjög skrýtið, ég fæ smá sár og það bara blæðir og blæðir, ég er með 25% af eðlilegu storknunrarmagni blóðs vegna lyfjana og það er þá auðvitað eðlilegt að það blæði því blóðið er svo þunnt...

 Það er roooosa gott að vera komin heim og vera í faðmi fjölskyldunnar:) það allra besta...Sóley hans Sævars gaf okkur svaka góð ráð til að mylja árans piparkökuhúsinu saman og allir hjálpuðust að á heimilinu. Reyndar var Soffía ýr öflugust í skreytingardeildinni :o) Ákvað að sleppa því að teipa það saman eða líma það saman með límbyssu,hehe:) Góð ráð engu að síður.

des 08 262

Soffíu puttar að skreyta

des 08 245

Brjálað að gera hjá okkur :)

des 08 263

Ánægð með afraksturinn:)

des 08 197 

Hér er Soffía Ýr að leika í jólaleikriti(jólaguðspjallinu) í leikskólanum, missti því miður af því en Örvar sá þetta flotta leikrit :)

des 08 001 
Soffía Ýr er líka að læra á fiðlu og gengur það vel.Hér er mynd af henni þar sem hún er í kennslu. Smá feimni stundum hjá henni með fiðluna. En hún og hinar stelpurnar sem eru að læra á hljóðfæri hjá henni Guðrúnu spiluðu fyrir krakkana á leikskólanum á föstudaginn og það gekk víst vel hjá Soffíu Ýr. ´

Ívar Ari er búinn að fá sínar einkunnir og gekk mjög vel. Við erum rosa, rosa ánægð með hann drenginn okkar. Fékk góða umsögn og er bara flottur skólastrákur og er alltaf að bæta sig:) Hann er ekkert sérlega mikið fyrir að láta mynda sig svo það er engin mynd af honum í þetta skiptið. Þær koma bara síðar.

Kveð í bili,

Hafdís María 

ps...setti nokkrar myndir í myndaalbúmið

 


18. desember- útskrift á morgun

Ætli þetta verði ekki síðasta bloggið mitt héðan af Grensási. Ég kem kannski til með að setja inn nokkrar bloggfærslur í framhaldinu þegar ég verð komin heim.

Hér á Grensási hafa stórir hlutir gerst, ég hef öðlast styrk, þol og meiri getu við athafnir daglegs lífs. Hér er stór flóra fólks, sumir mjög mikið veikir og sumir minna veikir. Út fer ég í lífið aftur héðan og sé hversu heppin ég er. Mér er sko engin vorkunn. 

Fékk þær fréttir áðan að eftir næstu sjónsviðsmælingu í mars þá á ég að fara í ökumat. Kemur þá í ljós hvort ég hafi nægilega stórt sjónsvið til að aka bíl. Svo á ég að fara í taugasálfræðilegt mat. Það hefur eitthvað með minnið að gera. Verð kölluð inn í það einhverntíman eftir áramót. Það er víst svo gríðarlegur biðlisti þar, enda fara þeir þangað sem hafa lent í heilablóðfalli.

Gústi bró og Erla héldu kveðjupartý í fyrradag. Sjá nánar myndir í albúmi.

Næsta blogg verður myndablogg og þar getið þið séð sumt af því frábæra fólki sem ég hef kynnst hér á þessum yndislega stað....

 En mikið óskaplega verður gott að komast heim.....

Kveð héðan af Grensás...næsta blogg heima í sveitinni góðu.

Knús á ykkur öll, Hafdís


Vika í útskrift

Já, lífið getur verið undarlegt. Í haust hélt ég að mín næsta útskrift yrði sem þroskaþjálfi næsta vor, en nei, ég er að fara að útskrifast héðan af Grensási á föstudaginn. Ef ég byggji í Rvk þá myndi ég fara yfir á dagdeild en þess í stað mun ég æfa mig á heimaslóðum eins og áður hefur komið fram. En ykkur að segja þá er ég að glugga í skólabækurnar og búin að fá frest á verkefnunum sem ég er afar ánægð með. Læknirinn minn hvatti mig til að halda áfram í náminu, því það er hluti af endurhæfingunni, komast í eitthvað af af því sem ég var að gera fyrir veikindin, fyrst ég hef getu og styrk til:)

Í morgun eftir sjúkraþjálfun fékk ég nudd á vöðvabólguhnútana. Svo fékk ég bakstra á eftir sem er kannski ekki í frásögu færandi nema að þegar ég var orðin vel heit og góð leit ég yfir á næsta  bekk. Þar var kona, sem fékk blóðtappa eins og ég, og ég sá að þessi indæla eldri kona var að detta af  sjúkraþjálfunarbekknum sínum. Ég man varla eftir mér fyrr en ég var búin að skutla mér að bekknum hennar og ætlaði sko heldur betur að grípa hana í fallinu en náði því auðvitað ekki og hún datt kylliflöt á gólfið, hún er ekki alvarlega slösuð en meiddi sig þó nokkuð. Á þessum örfáu sekúndum hafði ég hoppað af bekknum mínum, rifið af mér bakstrana og teppið  og skutlað mér yfir að næsta bekk og var tilbúin að grípa kellu...Fyndið hvað maður getur verið vitlaus...Ekki séns að ég hefði getað gripið hana! Hún hefur bara verið heppin að ég skyldi ekki hlussast ofan á hana og kremja...Grin

Helgin var dásamleg heima. Örvar eldaði hriiikalega góðan mat handa mérInLove, eins og svo oft áður. Krakkarnir rosa hress enda er sveinki farinn að vera tíður gestur í Akurey og með eitthvað gott í skóinn. Þeim hlakkar mikið til að fá mig heim. ´

Í gær fékk Soffía Ýr pabba sinn til þess að skrifa fyrir sig bréf sem hún samdi alveg sjálf handa mér. Bréfið hljóðar svona:

Mamma Hafdís góð.

Ég færi þér hjarta.
Soffía Ýr Örvarsdóttir.

Þú passar vel upp á mig
ert rosa góð og mér þykir vænt um þig

Hafdís María Jónsdóttir.

þín Soffía Ýr


Hann afi minn...

Í dag þann 11. desember er afmælisdagur afa míns og afa hans Örvars. Því miður fékk ég ekki að kynnast afa hans Örvars nógu vel, hitti hann í örfá skipti áður en hann kvaddi þennan heim. 

En afa Gústa þekkti ég vel, hann bjó á sama hlaði og ég öll mín uppvaxtarár. Ég held að allir þeir sem kynntust afa Gústa eigi til skemmtilegar sögur af honum. Hann var svo yndislegur afi. Afi átti marga góða frasa í gegnum tíðina. Þessum gleymi ég aldrei: "Fjandinn í heitasta hoppandi helvíti, hvar er stafurinn minn?".  Mikið  hló maður oft af þessu og gerir enn þann dag í dag.

Afi var slæmur í mjöðm og notaðist við staf. Hann var hörkunagli sem kallaði ekki allt ömmu sína. Hann sótti alltaf kýrnar í Sigluvík á gamla, græna og góða pallbílnum sínum. Ég fór mjög oft með afa að sækja kýrnar, honum til aðstoðar. Stundum var ég alveg skíthrædd með honum og fannst ökulag afa gamla dáldið áhættumikið! Stundum fannst mér hann keyra OF nálægt kúnum þegar við keyrðum á eftir þeim heim, hann kunni sko að reka kýrnar sá gamli. Flautan stóð fyrir sínu og stundum stoppaði ég þann gamla þegar hann hafði haldið flautunni inni í meira en mínútu!! Man að hann var ekki ánægður einn daginn þegar flautan bilaði:)

Gamli, græni, góði pallbíllinn var notaður til ýmissa fleiri verka en að reka kýrnar. Afi var iðinn við að gá til kinda, bað mig mjög oft að koma með til að hjálpa sér og ég fékk stóran hnút í magann þegar hann keyrði upp á hraukinn við skurðinn til að fá yfirsýn yfir skurðinn, kom það fyrir að við fundum kind ofan í skurðinum og kom þá stafurinn til góðra nota, sérstaklega ef um hyrnda kind var um að ræða.

Það er eftirminnilegt að hugsa til þess þegar afi rakaði saman heyjinu, nú á gamla, græna og góða pallbílnum með múgavélina aftaní. Maður var oft með þeim gamla í pallbílnum og það var margt spjallað og sagði hann mér mikið frá gamla tímanum, sem mér fannst gaman að heyra um. En hann tók pásur og hlustaði á fréttirnar, veðrið og dánafregnir. Útvarpið náðist ekkert alveg sérlega vel, dáldið mikið suð og surg...Þá bara hækkaði sá gamli dálítið rösklega og hávaðinn var nokkuð mikill!

Afi fylgdist alltaf með því þegar álftirnar voru komnar og komnar með unga,alltaf á sama stað ár eftir ár, við fórum saman í bíltúr út að Klastbarða til að sjá ungana og telja þá. Stundum kíktum við með kíkirnum hans og dáðumst að fallegu ungunum. 

Ökulagið hans afa breyttist eftir því sem hann varð eldri. Keyrði oft á 20 km. hraða og var á ca. 4000 snúningum... Hann fór stundum í Hvolsvöll og við heima vorum með hnút í maganum...Honum fannst hann fínn bístjóri og gat alveg keyrt þrátt fyrir háan aldur...En við vorum dauðhrædd um að eitthvað kæmi fyrir. Eg var alltaf fegin þegar sá græni renndi aftur í hlaðið eftir kaupstaðaferðinar. Oftar en ekki fékk maður þá bláan Opal eða Bounty og eina kók! Góðmennska afa var mikil.

Jólin voru komin þegar afi var búinn að kaupa mandarínurnar og Maltið. Maður kom tvisvar sinnum oftar í heimsókn til afa á þeim tíma. Hann geymdi það inn í geymslu og hún var öllum opin. Seint á aðfangadagskvöld hittust svo allir í gamla bænum og áttu notalegar stundir saman.

Ég man eftir mörgum ótrúlega skemmtilegum ævintýrum sem við afi áttum saman, þau voru öll skemtileg!

Afi veiktist og lá á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi um nokkurt skeið. Á þeim tíma leigðum við Örvar íbúð á Selfossi, ég var í skóla og hann að vinna. Við fórum til afa á hverju kvöldi og húmorinn leyndi sér ekki. Þakklætið var líka mikið alltaf. Svo keypti ég malt handa honum annað slagið og þá var sá gamli himinlifandi:)

Afi dvaldi á dvalarheimilinu Lundi undir það síðasta þar sem hann lést seinni hluta árs 1999. Var jarðaður í desember. Ég var þá ófrísk af honum Ívari Ara og vildi að hann hefði vitað það áður en hann dó. Hann var orðinn svo utan við sig, kannski hefði hann ekki meðtekið það...

Besti afi í heimi, hann afi Gústi!!

_________________________________________________________________

Ég er stabíl, dofinn ekki minnkað en er hress og kát og bjartsýn!

Knús, Hafdís María

 

 

 


Þriðjudagur

Jæja, ég er sest við tölvuna hér á Grensási eftir að hafa átt notalega stund með gamla fólkinu, vinum mínum, hér á Grensási. Það mætti segja að meðalaldur vina minna hafi stórlega hækkað eftir komu mína hingaðTounge En það er mjög gefandi að hitta þetta yndislega fólk sem lent hefur í ýmsum áföllum og sumum skelfilegum alveg.  En það  var hér staddur gamall maður að lesa upp úr bók eftir einhvern valinkunnan rithöfund, sumir fóru að hrjóta, aðrir hreinlega steinsofnuðu en ég hélt uppi heiðri unga fólksins og ákvað að vaka OG HLUSTA LÍKA! 

Um helgina fékk ég að knúsa hann Ingimar minn sem kom ásamt foreldrum sínum í heimsókn til okkar í sveitina um helgina. Það var nú ekki lítið gaman að hitta hannSmile Fékk að brasast við að klæða hann í útifötin, gekk bara furðu vel.

Í gærkvöldi var aðventukvöld hjá okkur kjúklingunum hérna, allir komu með einn pakka og fengu svo einn pakka í staðinn, bara eins og á litlu jólunum hjá börnunum. Fékk þetta fína nammi....jaa EKKI veitti mér af Errm Eða þannig...Svo kom Árnesingakórinn og söng jóalög fyrir okkur, svaka flott!

Fékk virkilega skemmtilegt símtal í dag frá konu sem er í stjón félagsins HEILAHEILL og heitir Katrín Júlíusdóttir. Eftir áramót er stefnt að því að setja á laggirnar hóp ungs fólks sem hefur fengið heilablóðfall. Það er mikill munur á ungu fólki sem fengið hefur heilablóðfall en eldra fólki! Mér leist mjög vel á það og ætla að vera með, að sjálfsögðu. Held það geti verið mjög jákvætt að geta sagt þeim sem lent hafa í sömu sporum sögu sína til þess að hjálpa þeim og styrkja! Ungt fók sem á lífið framundan þarf að vita það að þótt það hafi fengið heilablóðfall þá getur það náð að jafna sig og innan fárra ára eða mánaða orðið ótrúlega sterkt aftur og komist út á vinnumarkaðinn aftur.

Nóg pex í bili....Cool Hafdís María

 

.

 


Magnea Ósk Hafsteinsdóttir

Stúlkan hans Hafsteins bróður og Kristínar var skírð í dag og fékk hún fallega nafnið Magnea Ósk.

Hér eru stoltir foreldrar með Magneu Ósk

desember 044

Svo er stolt frænka hér með Magneu Ósk :)

desember 055

Þið verðið að smella á myndirnar til að sjá þær stærri! 

Ég er svipuð, dofinnn er að pirra mig mest. Ömurlegt að þurfa að taka honum og geta lítið gert annað en að lifa með honum. Bið til guðs að hann minnki...Þó ekki væri nema örlítið... Skrýtið að það skyldi hafa verið ég sem lendi í þessu ógeði...Ef ég ætti eina ósk þá væri hún sú að ég hefði ekki lent í þessu. Manni langar að lifa sama lífi og áður, geta gert eitthvað sem ég hef alltaf getað....bara þessi venjulegu heimilisstörf eða að leika við krakkana og gert eitthvað með þeim fyrir jólin eins og ég hef alltaf gert. Ég þreytist svo fljótt og þarf að leggja mig reglulega.

Gerðum tilraun fjölskyldan til að setja saman piparkökuhús en það gekk EKKI. Notuðum sykurbráð sem virkaði ekki...Örvar gerði ítrekaðar tilraunir til að festa húsið saman....Gengur betur næst en krakkarnir pínu skúffuð yfir því hvað það gekk illa skiljanlega..

Meira síðar.... 


Helgarfrí á morgun!

Í dag er loksins kominn fimmtudagur....heimferð á morgun. Hlakka til að knúsa krílin mín og kallinn minn. Heima er best!!

Um síðustu helgi fórum við með börnin til hennar Birnu ljósmyndasnillings og tók hún jólamyndir af krökkunum fyrir okkur. Tók mjög margar myndir og margar flottar. Hér er ein sem ég held mikið uppá, smá sýnishorn...

Copy of %E6%E6%E6
Takk aftur Birna! Set síðar inn fleiri myndir:)
Í dag var mér sagt að ég ætti að fara 3 sinnum á dag í sjúkraþjálfun, sem er bara gott mál....styrkist þá enn hraðar:) Eyja sjúkraþjálfari ætlar að fara að hafa samband við sjúkraþjálfara fyrir austan og koma mér að þar. Svo eru nú svo góð tæki í Olympus á Hvolsvelli, hugsa að ég nýti mér tækin þar....
Hugsa líka að það verði nóg að gera hjá Örvari við að skutlast með mig í æfingar fram og til baka :o)
Sjúkraþjálfaranir eru búnir að fara með mig í sund fjórum sinnum. Nú er ég orðin það góð að ég telst orðin sjálfbjarga í sturtuklefanum svo nú má ég fara í sund sjálf!!! Engin þarf að hjálpa mér lengur úr og í fötin en ég lofa þeim að nota göngugrind inn í klefanum svo ég detti nú örugglega ekki.
Heyrði svoldið skemmtilega setningu um daginn, ég lá í heitum bökstrum niðri í sjúkraþjálfun og heyrði að á bekk við hliðina sagði sjúkraþjálfari við einhvern sjúkling: " Á Grensás er BANNAÐ að segja 'EG GET EKKI".
Þetta er andinn hér...Við getum það sem við ætlum okkur...Mér finnst allavega ekkert annað í boði.
Kveðja, Hafdís
ps...Takk fyrir kveðjurnar sem þið sendið mér hér...Þær eru mjög hvetjandi og skemmtilegar...
Ps...Ragnheiður....Kórinn góði kemur að syngja hér á R-3 á eftirGrin

Orsökin fyrir blóðtappanum er fundin!

Í morgun kom Örvar brunandi hingað á Grensás vegna þess að markmiðsfundurinn var í morgun kl. 10:30. Ætla að reyna að útskýra það sem í ljós kom fyrir ykkur.

Á milli forhófanna í hjartanu er veggur hjá okkur öllum. Hjá mér er þessi veggur í rauninni tveimur númerum of stór. Þ.e. hann er flöktandi um alls 9 millimetra. Þessi veggur á ekki að flökta neitt og þá alls ekki um 9 millimetra. Þetta mun vera galli sem ég hef alltaf verið með en aldrei valdið mér skaða fyrr en þann 16. október sl. Það sem gerist við þetta flökt er að blóðið í forhólfunum fer á mikla hreyfingu, líkti Páll því við að það væri eins og hvirfilbylur og myndast þá blóðsegi sem verður að blóðtappa sem fór af stað í mínu tilfelli og stoppaði hægra megin í heilanum. Páll læknir sagði að þetta væri mjög sjaldgæft, þessi hjartagalli.

Eina sem hægt er að gera við þessu er að halda áfram á blóðþynningarlyfjum og mun ég þurfa að taka þau það sem eftir er ævi minnar. Það er Það eina sem hægt er að gera til að reyna að fyrirbyggja að annar tappi myndist. Blóðið helst miklu þynnra með þessum lyfjum og því minni líkur á að óköpin endurtaki sig. Jafnframt ber mér að vera varkár og fara varlega, vegna þess að úr minnsta sári getur blætt ótæpilega og þótt ég fái minniháttar skurð má ég búast við því að ég gæti þurft að láta sauma til að blæðingin hætti. Storknunarmagn blóðsins míns er aðeins 15-20% af  eðlilegu storknunarmagni vegna lyfsins.  Eins verð ég að vara mig á að detta ekki né fá högg, því það getur verið mikil blæðingarhætta. Mikilvægt að sé meðvituð um þetta. En það getur verið erfitt þar sem sjónin er ekki í lagi.

 Nú, þá að góðu fréttunum!! Ef allt fer sem horfir, fer ég heim þann 19. desember, verð að stunda þjálfunina grimmt í sjúkraþjálfun á heimaslóðum svo mér fari enn meira fram.

Læt þetta duga, verð áfram jákvæð og bjartsýn þrátt fyrir allt og allt!! Ég á allt lífið framundan, yndislegan mann, yndisleg börn, yndislega vini og stórfjölskyldu... allir vilja mér það besta, það hefur sýnt sig síðustu daga og vikur.

Kveðja af Grensási, Hafdís María

 


GÆSAHÚÐ...

Í gærkvöldi áttum við fjölskyldan aldeilis skemmtilegt kvöld. Fórum á aðventutónleika sem voru til styrktar okkur fjölskyldunni, á Heimalandi undir Eyjafjöllunum. Söngurinn var undursamlegur, kirkjukórar Rangárþings Eystra komu fram, hljóðfæraleikarar og einsöng sungu þau Gísli Stefánsson og Maríanna Másdóttir af alkunnri snilld. Það liggur við að maður sé enn með gæsahúð. Þetta voru svo dásamlega fallegir tónleikar....Ég vil aftur þakka ykkur sem mættuð og ykkur sem komu fram. Bara það að sjá þennan fjölda fólks og öll þessi kunnulegu andlit var svo notalegt og ákveðinn sigur fyrir mig....  Takk fyrir þessa ógleymanlegu kvöldstund sem við fjölskyldan munum hvorki gleyma né geta þakkað nógsamlega fyrir. Hugurinn á bak við verkið er það allra dýrmætasta.

Örvar skutlaði mér svo í morgun hingað á Grensás, var svo ánægð og hress eftir fallegu tónleikana að ég var bara eins og Íþróttaálfurinn í æfingasalnum...alveg endurnærð. Lofaði svo mörgum tónleikagestum að vera dugleg að æfa, verð að standa við það ;)

kveðja, Hafdís María

Ps... á morgun verður markmiðsfundur, hlakka bara til....fæ KANNSKI dagsetningu á útskrift...og niðurstöður úr hjartaskoðuninni, því sem betur átti að skoða...


Home sweet home

Í dag er ósköp hefbundinn laugardagsmorgun, börnin að horfa á barnatímann í sjónvarpinu og ég bara vöknuð og reyndar ekki að læra en í tölvunni engu að síður;) Lífið um helgar er alltaf að færast nær okkar frábæra eðlilega lífi.

Ég fór í hjartaskoðun í gegnum vélinda í gær og gekk hún mjög vel, sem betur fer. Fékk kæruleysissprautu og töflur og var rammhálf á bekknum, hefðu þær nú haft vit á að gefa Örvari eins og eina líka þá hefðum við getað verið saman á spítalafyllerýi...smá grín....
Ég veit það orðið að maður verður að vera duglegur að gera grín af þessu öllu saman og geta hlegið þá gengur allt svo miklu betur. En við fyrstu sýn sást ekkert óeðlilegt við hjartað en læknirinn sagði að það væri samt eftir að lesa úr myndum. Fæ að vita meira um það eftir helgi.

Það er svo frábært fólk sem vinnur þarna á Grensás, þetta er fólk sem hefur komið mér á lappirnar aftur. Ég var svo viss um að líf mitt væri að enda þegar ég rankaði við mér á gjörgæsludeild Landspítalans, ég var í raun búin að kveðja fólkið mitt hér heima rétt áður en sjúkrabíllinn kom og sótti mig hérna heim. Það var svo ömurlegt, hugsandi um börnin mömmulaus... Þvílíkt sem flaug í gegnum huga minn á þessum örlagaríka og ömurlega degi. Reyndar byrjaði dagurinn eins og allir dagar, við Örvar vöknuðum saman, Ívar fór í skólabílinn og ég keyrði Soffíu Ýr í leikskólann og brunaði beint í Hvolsskóla í vinnunna. Fínn dagur, við Ingimar brösuðum heilmargt saman. Nú svo deif ég mig heim því Ívar Ari ætlaði í fyrstu helgarheimsóknina sína til Gústa og Erlu. Ég var reyndar að hugsa um að vera heima og læra á meðan Örvar færi með hann og ætlaði hann að taka Soffíu með en ákvað að drífa mig með.
Ég var nýkomin heim í Akurey með bæði börnin í bílnum til að sækja Örvar.Tók þau með mér úr skólanum og leikskólanum. Krakkanir komu inn að skipta um föt og Örvar var að fara með þau aftur inn í bíl þegar ég fékk svakalegt suð fyrir eyrun, svima og varð máttlaus. Lak á gólfið og náði að kalla strax á Örvar...er svo fegin að hafa ákveðið að fara með þeim, annars hefði ég líklega verið ein þegar þetta gerðist. Örvar sá fljótt að eitthvað alvarlegt var að gerast. Ég missti mátt í vinstri hendi, vinstri fæti og var alveg óskiljanleg í tali. Gólaði á Örvar að sækja símann sem hann skildi og gerði grey kallinn....Ætlaði sko sjálf að hringja í Guðmund lækni, ýtti á vitlausa takka og sá svo lítið...Þannig að Örvar hringdi strax í Guðmund og þrjóskukellingin ég ætlaði að tala sjálf við hann en hann skildi mig ekki...enda var ég svo dofin og engin leið að skilja mig. Þá greip Örvar símann af þrjósku kellunni;) og bað Guðmund um sjúkrabíl STRAX og sjúkrabíllinn fór strax af stað......Hvað ætli maður sé búin að segja börnunum oft eða hugsa sjálfur oft að ef eitthvað alvarlegt skeður þá hringi maður í 1 1 2. En á ögurstundu hugsar maður ekki rökrétt...EN sjúkrabíllinn var strax sendur af stað svo það breytti ekki öllu í þetta skiptið.

Örvar hringdi í mömmu meðan beðið var eftir bílnum og Happó kom líka, þau stumruðu öll yfir mér. Pabbi kom og tók krakkana yfir til sín.

Hausverkurinn var bara hægra megin í höfðinu, óbærilegur sársauki, og máttleysið var bara vinstra megin. Blóðtappinn lenti hægra megin í heilanum og hefur það áhrif og afleiðingar á vinstri helming líkamans. 

ææ, er að hugsa um að rifja þennan dag ekkert upp meir, en samt gott að vera búin að því.

 NÚNA erum við Örvar að fara með Soffíu Ýr í fiðlutíma. Ég ætla bara að drífa mig með, hef bara gott af því að skakklappast með.

Ég er svo ánægð með hversu margir hugsa fallega til mín og sýna mikinn hlýhug í minn garð með kveðjum og öðru. Svo verða aðventutónleikar til styrktar mér um helgina og þar munu koma fram mikið af listafólki. Ég er svo orðlaus yfir miklum hlýhug í minn garð, veit ekki hvað skal segja bara...kom að því að ég yrði orðlaus...

 1000 knús, Hafdís María í sveitinni


« Fyrri síða | Næsta síða »

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband