17.2.2009 | 19:49
Afmælisdagurinn minn
Nú er afmælisdagurinn minn að kvöldi kominn. Mamma útbjó þessa glæsiveislu handa mér með smá aðstoð Jóa Fel, heehhe. Fullt að kökum og svo gerði hún sína sívinsælu brauðtertu með meiru.
Yndislegur dagur, ég er bara svo þakklát fyrir að vera orðin þetta hress og geta notið dagsins svona vel. Það er stutt á milli lífs og dauða. Það er alveg víst. Þess vegna eigum við öll að njóta lífsins og njóta þess að fá að vera þátttakendur í því. Lífið horfir öðruvísi við manni þegar maður hefur orðið fyrir áfalli sem hefur mikil áhrif á mann. Ég er óendanlega þakklát og óendanlega sátt með lífið og hvet alla til að sýna jákvæðni og gleðjast yfir smáu hlutunum sem skipta svo miklu máli.
Lífið er yndislegt!
Knús, afmælisstelpan sem er að fara í nálastungur á morgun:) og í tékk nr. 2 á Grensás :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
14.2.2009 | 09:02
Allt og ekkert
Nú er ég búin að fá tíma í nálastungum hjá fyrrgreindum manni sem hefur hjálpað öðrum við að losna við dofa. Viðurkenni að ég ber miklar væntingar um að ég muni finna fyrir minni dofa eftir nokkur skipti, þó ekki væri nema PÍNU LÍTIÐ! Núna koma stundir sem dofinn eykst mjög mikið, mér finnst það mjög skrýtið, en svo minnkar hann aftur á milli. Ekki alveg nógu sátt við þessa aukningu því hann á að minnka en ekki aukast. En eins og ég segi, hugsa ég bara til dagsins sem ég finn almennilega fyrir táslunum mínum, dagsins sem ég finn að ég hef kálfa og óskerta tilfinningu fyrir í vinstri fæti og í fingrunum mínum á vinstri hendi. Eins mun ég fagna þeim degi sem lengsta tannlæknadeyfing sem ég hef vitað til fer úr mér. En kinnin er stundum eins og hún sé bara steindauð og þess á milli er ég með náladofa dauðans í henni og tennurnar og gómurinn er eins og þegar maður gengur út af tannlæknastofunni með góða deyfingu!
En ok, ég skal ekki kvarta, ég hef máttinn í líkamanum þrátt fyrir þennan dofa. Ég hef sagt það áður og segi það enn....ég er heppin, heppin að vera á lífi!!
Aldrei, aldrei, hefði mér dottið í hug t.d. að vera á leið á þorrablót í kvöld. Fyrir tæpum 4 mánuðum var ég nokkuð viss um að ég myndi aldrei nokkurntíma stíga í lappirnar aftur. Labbaði 4 skref í einhverri göngubrú nokkrum dögum eftir áfallið og í marga daga á eftir það og var nær dauða en lífi úr þreytu á eftir. Svaf dag og nótt. En í þessu ferðalagi mínu voru einhver æðri máttarvöld með mér, það þarf ekki að efast um.
Það er skítt að kvarta um svona smáhluti þegar aðrir í lífinu þurfa að glíma við annað og verra!
Þorrablót í Njálsbúð í kvöld og ég ætla sko þangað.
Það verður gaman...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:06 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
4.2.2009 | 19:03
Allt að gerast...
Fórum í höfuðborgina í dag á Grensás og þar fékk ég mörg knús og guð hvað það var yndislegt að hitta þar alla aftur. Kíkti í Iðjuþálfunina, sjúkraþjálfunina og á vini mína(sjúklingana) alla sem enn eru á Grensás. Miklir fagnaðarfundir og svo yndislegt að hitta þau aftur. Maður fékk bara smá tár í augun!!! Nú svo allar hjúkkurnar yndislegu og áttum við Örvar rosa gott spjall við lækninn sem sá um mig á Gensási, hann Pál og svo hitti ég konu að nafni Claudia sem spjallaði við mig um minni, athygli og einbeitingu. Allir þessir hlutir hafa sannarlega gengið til baka, allt á mjög góðri leið og ég er afskaplega heppin með það. Skammtímaminnið var svoldið að stríða mér en það er liðin tíð. Er orðin ansi góð bara ;) Á að hitta hana í ca. 3 skipti í viðbót en kannski ekki svo oft sagði hún fyrst ég er orðin svona ansi brött. Átti reyndar að hitta hana þegar ég lá inn á Grensási en biðlistinn var svo mikill að ekki var unnt að koma mér að þá:)
Ég á góðar minningar af þessum dásamlega stað þar sem hjólin fóru að snúast og hlutirnar að gerast... þrekið jókst, ég komst að alvöru á lappirnar aftur og lífið fór að vera eðilegra en það var á B2.
Ég er nú í verknámi vegna námsins og er ekki frá því að ég nái að drusla mér í gegnum skólann og útskrifast í vor. Það er markmiðið!! Ég er reyndar mjög þreytt eftir daginn þegar ég er búin í verknáminu, en þegar maður ætlar sér eitthvað þá reynir maður sitt besta til klára það!! Kennaranir og þroskaþjálfinn sem er með mig út á vettvangi eru líka alveg frábær og skilningsrík. En ef ég næ ekki að klára þetta núna, þá útskrifast ég bara næsta haust. Ég á jú, heilmikið óunnið síðan á haustönninni, vegna veikindanna. EN stefnan er að klára dæmið á þessari önn!!
Bið að heilsa að sinni,
Hafdís María :)
Bloggar | Breytt 8.2.2009 kl. 11:17 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)
28.1.2009 | 17:11
Smá update:)
Mér gekk mjög vel í skólanum og frábært að hitta skólafélagana aftur. Mikið nám framundan svo ég ætla að vera dugleg að læra svo ég nái markmiði mínu.
Í dag er ég búin að vera ansi dugleg, fór í sund með fjölskyldunni, synti og fór í pottinn. Eins og ég lofaði sjúkraþjálfaranum mínum á Grensási að vera dugleg að gera. Þegar ég syndi finn ég fyrir svo mikilli frelsistilfinningu, vatnið vinnur vel með líkamanum. Stundum er eins og maður sé fangi í eigin líkama vegna yfirþyrmandi dofa og stífleika í fæti og hendi. Það er svo MIKLU auðveldara að hreyfa sig í vatni og ég finn því minna fyrir hreyfiskerðingunni þegar ég syndi. Mjög góð tilfinning það.
Nú svo var það sjúkraþjálfunin. Ég er alveg svakalega ánægð með nýju sjúkraþjálfunina á Hvolsvelli. Hörkusjúkraþjálfari sem ég er með hún Hjördís. Ég get varla verið í betri höndum eftir útskriftina:)
Fór í blóðprufu í gærmorgun og það var hringt í mig áðan frá Segavarnardeild Landspítalans og hafði það komið í ljós að ég var á allt of lítilli þynningu. Þannig að það var bætt við mig helling af blóðþynningartöflum. Fer því aftur eftir viku í blóðprufu og þá kemur í ljós hvort þynningin sé nægjanlega mikil. Mjög mikið atriði að fylgjast vel með blóðinu svo minni líkur séu á því að það sama komi fyrir mig aftur.
Í byrjun febrúar á ég svo að mæta á Grensás í svolítið tékk og á að mæta í 4 skipti með ca. viku millibili. Það verður dásamlegt að hitta aðeins alla vini mína þar aftur.
Þannig að það er bara allt í góðum gír :)
Meira síðar, Hafdís María
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:16 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
21.1.2009 | 00:16
Komin í gamla farið
Nú er ég hálfnuð með innilotu í Háskólanum og er aldeilis búin að spökulerga og kortleggja lokaritgerðina mína. Já, ég trúi þessu ekki sjálf svo ég ætlast ekki til að þið bara trúið þessu heldur. En svona leikur lífið við mig og ég er svo heppin að vera þess aðnjótandi að halda áfram lífinu þar sem frá var horfið fyrir áfallið. EN dofinn hefur ekki minnkað og sjónin er eins. EN úthaldið eykst smátt og smátt, var reyndar mjög syfjuð fyrsta skóladaginn en svo sjóast maður bara til. En er alveg í skýjunum að fá tækifæri til að halda áfram og klára þetta skemmtilega nám.
Er líka fegin að hafa farið að ráðum Páls læknis á Grensási og að reyna að halda áfram í náminu því ég get það þar sem ég get hvílt mig reglulega og unnið í náminu þar á milli eins og passar fyrir mig hverju sinni. Það er hluti af endurhæfingunni. Ég verð fljótari að ná fyrri styrk og úthaldi með því og að komast í fyrra form.
Er líka svo heppin að vera með einkabílstjóra og þennan fína griðarstað hjá henni Árnýju Láru. Við erum búnar að lenda í ýmsu skemmtilegu ;)
Mátti til með að skella inn einni færslu úr höfuðborginni:)
Hafdís María
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (12)
16.1.2009 | 02:32
Góð grein eftir formann Heilaheilla...
Láta ekki deigan síga! |
Á nýju ári, jafnvel er þú lest þessar línur þá eru 2 einstaklingar að berjast fyrir lífi sínu, - þá í dag vegna heilaslags. Tölur sýna að hér á landi séu um 700 manns sem fá þetta á ári og það getur enginn lýst þeirri tilfinningu þegar barist er upp á líf og dauða þegar heilablóðfallið ríður yfir, nema þeir sem verða fyrir því. Ekkert áfall er eins og það er eins frábrugðið eins og mennirnir eru margir og því miður eru sumir mismunandi undir það búnir, en það fer eftir því hvernig þeir fara með heilsuna frá degi til dags. Sumir deyja en aðrir eru heppnir og lifa það af, geta tekið aftur þátt í atvinnulífinu eins og ekkert hafi í skorist, en aðrir búa við varanlega örorku og endurhæfingin er því mismunandi,- en það þýðir ekki að þeir séu dæmdir út leik. Gott líferni dregur úr áhættuþáttum og eykur möguleika á betri og skjótari endurhæfingu. Grensásdeild Heilaheill vinnur að velferðar- og hagsmunamálum þeirra sem hafa orðið fyrir skaða af völdum heilaslags, þá sérstaklega fyrir þá sem eftir lifa og búa við breytta aðstöðu vegna einhverskonar annmarka og lömunar. Það samanstendur af sjúklingum, aðstandendum og fagaðilum og er áhuga hafa á málefninu. Allt frá því að starfsemi félagsins var efld árið 2005 og þegar heimasíða þess var opnuð, hefur það látið til sín taka á vettvangi Sjálfsbjargar, Hollvina Grensásdeildar og Samtaugar. Þá hefur það einnig tekið þátt í kynningarstarfsemi á vegum félagasamtaka, fyrirtækja, Háskóla Íslands og verið með virka 10 málefnahópa, er hafa skilið eftir sig eftirtektarvert starf, m.a. styrktarsjóðinn Faðm. Þá er félagið einnig með opna fræðslu,- og félagsfundi fyrir almenning, þá fyrsta laugardag hvers mánaðar sem hægt er að fylgjast með á viðburðardagatali heimasíðunnar. Margir félagsmenn, m.a. þingmenn, rithöfundar, leikarar, ljósmyndarar, framkvæmdastjórar, læknar, lögreglumenn, hjúkrunarfræðingar o.fl. er hafa orðið fyrir áfalli og eru komnir aftur út í atvinnulífið, hafa tekið fullan þátt félagsstarfinu með áhrifaríkum árangri. Hafa þeir hvatt þá sem orðið hafa fyrir heilaslagi með slagorðum félagsins Áfall er ekki endirinn og Þetta er ekki búið og þeir eiga miklar þakkir skilið, sem er hér með komið á framfæri. _______________________________________________________________________ Náði mér í þessa grein á www.heilaheill.is Hvet ykkur sem hafið áhuga á að fræðast um heilablóðföll að kíkja inn á www.heilaheill.is Kveð að sinni...Hafdís María |
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:14 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2009 | 01:35
Árið 2008 í hnotskurn
Enn svíf ég um á bleiku skýji eftir bónorðið góðaJ Ekki leiðinlegt að geta glaðst svo mikið eftir baráttuna sem við börðumst í saman í lok ársins 2008. Auðvitað var ég ekki ein sem hóf þessa baráttu, heldur yndislega fjölskyldan sem ég er svo þakklát fyrir að vera partur af. Bæði tengdafjölskylda og fjölskylda mín. Örvar, sem ávallt var eins og klettur og peppaði mig áfram, tók við táraflóðunum miklu á B2 meðan ég var að átta mig á áfallinu og dró úr hugsunum mínum um að ég myndi aldrei komast á lappirnar aftur. Hann hafði rétt fyrir sér og allir hinir sem stóðu við hlið mér í þessu ömurlegu en óumflýjanlegu aðstæðum.
Mamma mín og mamma hans Örvars voru algjörir klettar, fyrstu dagana eftir áfallið sváfu þær hjá mér í sitthvorum Lazy boy stólnum og í dag hlæ ég við tilhugsunina. Mamma hraut hressilega og svæfði tengdamömmu með hrotunum. Svo þegar ég var farin að heyra drunurnar í tengdamömmu þá sofnaði égJ Algjörar perlur þessar konur.
Örvar var með börnin á nóttunni á meðan þau voru í bænum en svo var hann hjá mér í nokkurn tíma meðan þau voru hjá ömmu og afa í Akurey . Eitt er víst að ég hefði aldrei komist ein í gegnum þetta. Ég er svo fegin að vera laus við þennan ógnvænlega höfuðverk, hef minnkað verkjalyfin smátt og smátt. Var nokkurn tíma á morfínsprautum en í dag er ég að taka 3-4 paratabs á dag! Fer að minnka það með tímanum svo þetta er annað líf...Ég punktaði hjá mér eftir að ég kom Grensás í dagbók sem mamma keypti alla gestina sem ég fékk. Mamma skrifaði niður þá sem komu meðan ég var á B2 svo tók ég við á Grensási og til mín komu alls 100 manns yfir allt tímabilið. Frá degi 1 á spítalanum og til þess dags sem ég útskrifaðist af Grensási. Þessum gestum þakka ég fyrir komuna. Nú veit ég að ef einhver sem ég þekki lendir inn á sjúkrahúsi þá ætla ég að heimsækja hann. Það er ótrúlegt hvað heimsóknirnar gleðja mann og hvað maður var miklu hressari á eftir að hafa fengið gesti.
Árið 2008 var ekki slæmt ár að undanskildnum hremmingum mínum. Draumur minn um að eignast góðan hest hafði orðið að veruleika. Ég eignaðist viljugan og afar skemmtilegan hest. Ég reyndi eins og ég gat að ríða út, en var með mörg járn í eldinum og gat því ekki gert eins mikið af því og ég vildi en gerði mitt besta. Nú ég skellti mér á Vetrarmót Geysis og keppti þar í áhugamannaflokki. Laaaangt síðan ég hafði keppt en gekk þokkalega, var allavega voða ánægð.
Myndin hér fyrir neðan er mynd sem tekin var í sumar af okkur.
Ég fór í starfsnám í Hvolsskóla á Hvolsvelli og var þar undir leiðsögn þroskajálfa í nokkrar vikur. Það gekk ljómandi og skólinn gekk vel og ég mátti vel við una enda náði ég fínustu einkunnum. Ég vann á leikskólanum Örk aðeins einn dag í viku vegna námsins en hætti þar störfum í sumar og ákvað að breyta til. Mér bauðst vinna í Hvolsskóla og ákvað ég að fara í vinnu þar, þar sem námið mitt hefur nýst mér sérstaklega vel og verið mér dýrmæt reynsla. Í leikskólanum hafði ég unnið í 7 yndisleg ár. Var ég kvödd þar með pomp og prakt og útleyst með fallegum gjöfum, knúsum og kossum...
Börnin okkar urðu 4 ára og 8 ára í mars 2008. Haldin var skemmtileg veisla og komu amma og afi alla leið frá Reyðarfirði. Þau stækkuðu auðvitað alveg heilan helling við það að vera árinu eldriJ
Örvar hefur verið á kafi í bústörfunum þetta árið eins og önnur en það fylgir nú líka bóndahlutverkinu. Ég hef aðeins gripið inní þá sérstaklega í sumar að mjólka meðan karlarnir voru uppteknir í heyskapnum og ef einhvern hefur vantað í fjósið. Það er alltaf gaman enda aðstaðan góð. Mjaltagryfja og hægt er að mjólka 22 kýr í einu.
Ívar fór oft með mér að sækja kýrnar og hann kann sko að keyra traktor. Afi hans og pabbi eiga líklega heiðurinn af því. Hann er fær í dráttarvélaakstri og á framtíðina fyrir sér í því. Svo þegar við sóttum kýrnar hélt hann flautunni inni bara eins af afi Gústi væri mættur. Jaa skildi sá gamli ekki hafa brosað af okkur þá!
Við skelltum okkur á ættarmót hjá móðurfólkinu hans Örvars í sumar.Það var haldið fyrir norðan og var afskaplega vel heppnað og skemmtilegt.
Krakkarnir hittu frændur og frænkur og Soffía Ý r fór upp á svið eins og hinir krakkarnir, sumir sögðu brandara en hún fór með kvæðið: Buxur, vesti, brók og skór....alveg reiðbrennandi. Mikið flott hjá henni. Hún hafði lært það í leikskólanum sínum J
Svo var ættarmót hjá mér sem haldið var í Klauf og að sjálfssögðu var farið í Sigluvík líka:) Ég var svo heppin að vera ein af skipuleggjendunum og vá hvað þetta var gaman. Ýmislegt sprellað á ættarmótinu hjá föðurfólki mínu.
Í haust byrjaði ég í Hvolsskóla og hófst mitt lokaár í Háskóla Íslands þar sem ég stunda nám í þroskaþjálfun og loksins var útskrift í sjónmáli. Vinnan gekk vel og ég var mjög ánægð þar. En fótunum var svo algjörlega kippt undan mér þann örlagaríka dag 16. Október 2008. Var óskiljanleg í máli, máttlaus í vinstri helming líkamans og með miklar höfuðkvalir hægra megin í höfðinu. Var undir góðum höndum af fólki hér fyrir austan sem kom mér á gjörgæsludeild landspítlans og fékk fjölskylda mín þær fréttir að um blóðtappa væri um að ræða. Mínir erfiðustu dagar urðu dagarnir á eftir þegar reynt var að koma mér fram úr rúmi. Sársaukinn og ógleðin var mikil. Ég var keyrð um í hjólastól en hafði ekki nema úthald í nokkrar mínútur þar. Þegar ég var píndtil að ganga á ný eftir áfallið gekk ég út að hurð í herberginu mínu og til baka með aðstoð göngugrindar. Ég svaf á eftir eins og hefði hlaupið heilt maraþonn. Líkaminn var svo máttfarin að ég get bara ekki lýst því og því trúir engin nema sá sem lendir í þessu. Það að setjast upp í rúminu með aðstoð var þrekraun. Það mátti ekki fara með mig á klósettið nema að tvær hjúkrunakonur væru með. Mátturinn var svo lítill og ég hneig bara niður.
En kraftaverkin gerast! Eftir þessa ömurlegu lífsreynslu hef ég öðlast aukinn styrk og þol. Það finnst mér persónulega kraftaverk og að lömunin á vinstri hluta líkamans skyldi hafa gengið til baka er ótrúlegt alveg. Höfuðverkurinn minnkaði viku frá viku, ég fór að geta vakað lengur smátt og smátt, æfingar á Grensási voru erfiðar fyrst um sinn. Ég fékk mikinn slátt í höfuðið og mjög hraðan hjartslátt og þá var ég bara í pásum á meðan það jafnði sig og hélt svo áfram en stundum var ég sett inn í rúm til hvíldar. Þannig hef ég öðlast þennan styrk og aukið þrek og þol því án æfinga gerist akkurat ekki neitt. Grensás er staður þar sem kraftaverkin gerast. Dofinn er samt eins og áður og sama gildir um sjónina. En það kemur vonandi...
Eftir fundi með teyminu mínu á Grensási kom í ljós að ég yrði útskrifuð þaðan 19. Des en yrði markvisst í æfingum á heimaslóðum. Jólin voru yndisleg, hafa aldrei verið eins dásamleg. Gott að aðskilnaði mínum við börnin var loksins lokið og mér var farið að líða betur. Aðskilnaðurinn við börnin mín er eitthvað sem ég kýs að upplifa aldrei aftur. Áramótin voru dásamleg svo ekki sé minnst á hversu dásamleg þau urðu kl 01.00 eftir miðnætti...Nýtt ár verður mér og mínum vonandi gott og ykkur öllum.Á þessu ári eignaðist ég 3 systkinabörn, eitt þeirra býr langt í burtu frá okkur eða í Svarfaðardalnum en kom um jólin svo við fengum það að knúsa og skoða...
Hef ég nú hlaupið á hundavaði yfir helstu atburði ársins. Gæti skrifað endalaust meira en læt þetta duga.Hafið það gott og vonandi sofnuðuð þið ekki yfir lesningunni :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:32 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (13)
1.1.2009 | 13:52
Kallinn skellti sér á skeljarnar á nýja árinu...
Þetta gat hann kallinn...sko hann....Vissi ekki fyrr en hann bar upp bónorðið þessi elska og það á skeljunum sjálfum..............híhíhí
Góð byrjun á nýju ári!!!!
Ívar myndasmiður var sem betur fer rólfær og gat tekið myndir af okkur :)
Gleðilegt ár
Bloggar | Breytt 9.1.2009 kl. 02:20 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (23)
30.12.2008 | 15:12
...
Þá eru skemmtileg og yndisleg jól að baki!! Mikið gott að vera heima hjá sér og njóta jólanna og lífsins. Hefði ekki vilja missa af því...
Hér koma stundum um 200 IP tölur á dag, sem þýðir að einhverjar 200 tölvur eru að detta inn á bloggið mitt á dag. Svolítið óþægilegt en kannski á ég bara svona mikið af leynilegum aðdáendum Það eru auðvitað allir velkomnir að fylgjast með sem vilja það er ekki málið, en 200?? Hverjir eruð þið??
Þórunn systir og Baddi létu skíra drenginn sinn þriðja dag jóla og fékk fallega nafnið Alexander Dagur. Ég var skírnarvottur ásamt bróður Badda. Ekki leiðinlegt að vera skírnavotturinn hans Alexanders Dags.
Líðan mín er eins, dofinn jafn sterkur og alltaf, ef ég væri ekki með dofann væri þetta allt annað líf!!
En hann mun fara, trúum því statt og stöðugt á þessu heimili.
Það eru örfáar myndir í myndaalbúminu en þeir sem ekki hafa lykilorð á barnalandssíðuna krakkana ættu að biðja um það á: hafdismj@emax.is. Þar er sko hellingur af myndum...
Kveðja, Hafdís María
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (7)
24.12.2008 | 12:33
Gleðileg jól
Mig langar að þakka fyrir mikinn hlýhug og stuðning á síðastliðnum vikum á erfiðum tímum. Við höfum fundið fyrir miklum styrk sem hefur hjálpað okkur við að takast á við þessa þraut sem mér er falið að vinna úr.
Mikið hefur gerst en þó er mikil vinna framundan...vinna sem ég mun vinna samviskusamlega með þolinmæði og bjartsýni að leiðarljósi.
Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og farsælt komandi ár.
Með kærri þökk fyrir að fylgjast með hér á síðunni og hvetja mig áfram, það hefur hjálpað.
Hafdís María
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)