16.10.2011 | 14:27
3 ára afmæli í dag!
Timinn líður og læknar öll sár :)
Nú eru liðin þrjú ár síðan ég fékk blóðtappa í heila og hvað ég er þakklát fyrir að hafa haft betur í þeirri miður skemmilegu baráttu. Lífið er sú gjöf sem aldrei er hægt að þakka nægilega fyrir! Gjöf sem ég er svo innilega þakklát fyrir! Það líður aldrei sá dagur að ég hugsa ekki um þennan örlagaríka dag, 16. október 2008. Þessi venjulegi dagur breyttist í martröð. Ég hef margt lært á þessum tíma og ég er ótrúlega lukkuleg með mig :)
Dofinn í vinstri helmingi líkamans er, þ.e. í vinstri fót, vinstri hönd og vinstri hlið andlits er alltaf til staðar og ég tek minna eftir því sem tíminn líður. Sjónsviðið er enn skert og mun verða en ég er búin að læra á það og því er það ekki mikið að trufla mig við daglegt líf :) Ég fæ sterkan náladofa um allan líkama öðru hvoru og þá þegar mikið er að gera hjá mér. Hann er harður og vondur En minnkar á milli og stundum hverfur hann alveg :)
Ég, aðeins þremur árum eftir áfallið, get gert hvað sem mig langar, hvernær sem er og hvernig sem er. Ekkert getur stoppað mig!!! Hef meira að segja verið í BOOTCAMP, hverjum hefði dottið það í hug! Allt er hægt ef viljinn er fyrir hendi :)
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.4.2010 | 15:11
Reykjalundur, eldgos og útskrift :-)
Sé það á síðasta bloggi að ég ætlaði að vera duglegri að blogga ;)
Endurhæfingin á Reykjalundin hjálpaði mér alveg ótrúlega mikið. Hefði í raun aldrei trúað því hversu gott hún gæti gert mér. Ég fór eftir ákveðnu prógrami alla dagana og ég styrktist og þjálfaðist ótrúlega mikið á þessum 6 vikum. Ég græddi mikið á veru minni á Reykjalundi, þótt ég hefði auðvitað hvergi viljað vera nema heima ;) Tíminn flaug áfram og ég tel mig vera mjög heppna að hafa komist þarna inn. Svo kynnist maður alltaf nýju og nýju fólki. Kynnist fólki og sjúkdómum sem fer í reynslubankann.
Eldgosið hefur gert það að verkum að við höfum þurft að rýma í skyndi 3 eða 4 sinnum. Neita því ekki að þegar fyrsta sms-ið kom um að gos væri hafið í Eyjafjallajökli og við ættum að rýma, þá var heilmikið panik í gangi, svo þegar komið var í fjöldahjálparstöðina á Hvolsvelli kom fljótt í ljós að þetta var ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu. Ég er samt ánægð með hversu fljót við vorum að rýma, vorum á mjög góðum tíma. Á íbúafundunum sem haldnir hafa verið, áður en þetta kom til, þá var talað um að við hefðum 30 mínútur frá því að boðið kemur í símann, þangað til við yrðum að vera komin í Hvolsvöll. Þá held ég samt að miðað hafi verið út frá Kötlu gosi, það gæti tækið flóðið 30 mínútur að koma hér yfir Landeyjarnar. Síðasta rýmingin var þó sú hræðilegasta, en í sms-inu stóð að stórflóð væri að nálgast. Ekki var hægt að klára að mjólka kýrnar og var það þannig hjá flestum, bændur þurftu bara að fara út úr fjósi og beint upp í fjöldahjálparmiðstöð og láta skrá sig.
Hér eru myndir sem við tókum einn daginn.
Við höfum alveg sloppið við afleiðingar gossins en ömurlegt að vita hvernig náttúruöflin hafa farið með marga Eyfellinga. Vonandi er þessu bara að ljúka og að Katla sofi vært áfram.
Ég er að enda við lokaritgerðina mína og útskrifast 12. júní frá HÍ og get varla beðið eftir að verða Þroskaþjálfi!
Kveð að sinni!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 15:45 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
26.1.2010 | 20:33
Tíminn líður...
Allt gengur eins og í sögu hjá mér í endurhæfingunni hér í Mosó :) Tíminn hefur meira að segja liðið hraðar hér en ég þorði að vona. Enda nóg að gera í allskonar hreyfingu og þjálfun. Þetta er ótrúlegur staður, hér er sko tekið á því. Það líkar mér vel og meira að segja eru kílóunum aðeins að fækka : ) En umfram allt þá er ég á góðri leið með að auka styrk minn og getu og ef það gerist ekki hér þá veit ég ekki hvar það ætti að gerast!!!
Er svo að vinna í ritgerðinni minni þegar það er stund milli stríða :) Þetta kemur allt saman :)
Hér er svo mynd af mér með fjölsyldunni minn, mér finnst ég svo rík og elska þessa mynd!! :)
Bless í bili og segji svo bara ÁFRAM ÍSLAND Á EM :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 20:37 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
12.1.2010 | 22:57
Áfram heldur leiðin...
Komið þið sæl og blessuð :)
Eftir dálítin þrýsting af lækni mínum lét ég undan og fór á biðlista til að komast inn á Reykjalund. Staðan í dag er sú að þrek mitt, úthald og einbeiting er því miður ekki alveg nógu mikið. Samt mjög eðlilegt miðað við að hafa fengið heilablóðfallið. Nú er ég komin inn á Reykjalund á taugasvið. Á þessari deild er fólk sem hefur ýmist fengið heilablóðföll eða eru með sjúkdóma á borð við MS og aðra taugasjúkdóma. Ég byrjaði í gærmorgun og þessi vika fer mikið til í skoðanir og planlagt hvað á að leggja mesta áherslu á að vinna með og hvernig. Líst mjög vel á bæði sjúkraþjálfara og iðjuþjálfa og bara alla starfsmenn hér, þetta er náttúrulega bara Heilsu og spa hótel :)
Ég bað um að fá að fara í alla þá hreyfingu sem mér býðst, strax fyrsta daginn er ég komin í gönguhóp sem er frábært, maður getur valið um hóp 1, 2 eða 3 og hópur eitt gengur 1 km, hópur tvö tvo km og hópur þrjú 3 km. Minnir líka að það sé hópur fjögur. Ég byrjaði í hópi 2 og stefni svo strax í næstu viku á að færa mig upp í hóp 3. Svo í iðjuþjálfuninni verður unnið með að styrkja vinstri höndina meira og æfa fínhreyfigetuna á þeirri hönd einnig. Hún er enn mjög dofin eins og fóturinn og þ.a.l. nokkuð klaufsk.
Svo mun ég fara í vatnsleikfimi, í tækjasal, sjúkraþjálfun og fl. En þetta byrjar meira markvisst í næstu viku. Er yfirleitt búin um kl. 3 á daginn, oft samt fyrr. Ég ætla að nýta tækifærið og ljúka við lokaritgerðina mína, ég ætla að útskrifast í vor!!
Ég er ákveðin í að nýta mér þessa góðu aðstöðu sem hér er og nota þennan tíma í að styrkja mig og auka úthald og þol. Erfitt að rífa sig frá fjöskyldunni sinni þannig að það er eins gott að maður noti tímann vel í staðinn. Lít á þetta sem gott tækifæri til að ná aukinni getu og styrk og koma sterkari til baka heim!!!
Tek kannski nokkur blogg meðan ég er hér, ef einhver er enn að lesa :)
Kveðja af Heilsu-og Spa Hótelinu :)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 23:02 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
3.9.2009 | 20:12
Aldrei að segja aldrei...
Jámm, ákvað bara að skella inn færslu þótt ég væri auðvitað löngu hætt. Maður á víst aldrei að segja aldrei...
Sumarið heldur betur búið að vera ljúft og gott :) Gerist varla betra.
En ég hélt að minni sjúkrasögu væri nú alveg lokið, en það hefur komið á daginn að svo sé ekki. Var lögð inn á spítala eftir að ég fór á slysó í bænum því ég gat hvorki kyngt né tuggið ;) Eftir að búið var að dæla í mig helling af sýklalyfjum og ég búin að hitta nokkra lækna kom loks í ljós að ég var með herpes sýkingu í munninum og hálsinum. Allt annað líf eftir að ég fékk réttu lyfin og fékk að komast heim til mín aftur!! Við þessi veikindi fylgdi mikil lega sem þýðir það að þrekið mitt hefur minnkað mikið, ég var búin að safna smá þreki en svona er þetta bara. Það kemur aftur...alltaf aftur... :)
Nú það sem gerðist á spítalanum er að ég fékk sýklalyf sem juku áhrif blóðþynningarinnar til muna og ég skil ekki enn af hverju blóðþynningin var ekki mæld hjá mér á sjúkrahúsinu, annað eins var nú tekið af blóðprufum!! Eftir að ég kom heim fór ég í mína hefðbundnu mánudags blóðþynningarmælingu og þá var ég allt of mikið blóðþynnt. Passleg blóðþynning hjá mér á að vera á bilinu 2,8 -3 en hún var komin upp í rúmlega 9!! Það er í raun hættulega mikil blóðþynning og var mér vinsamlegast bent á að vefja mig í bómul á meðan ég væri svona ofþynnt. Ég átti erfitt með að borða og drekka. Fékk tvisvar vökva í æð sem gerði það að verkum að mér leið MIKLU betur, enda alveg að þorna upp. Blóðþrýstingurinn var kominn niður í ca. 85/60 sem var allt of lágt. Svo endaði með því að á sjúkrahúsinu á Selfossi var K-vítamíni sprautað í æð til að vinna á móti þynninunni. En það lagaðist þegar ég fékk vökva í æð, þá fór þrýstingurinn aðeins upp á við :) Ég fékk reglulega símhringingar frá blóðþynningardeildinni á Landspítalanum og læknirinn þar ákvað í samráði við hjartalækninn minn að taka mig alveg af Kóvarinu(blóðþynningarlyfinu) og setja mig á hjartamagnýl í staðinn en hann sagðist ætla að koma mér í hjartaskoðun gegnum vélinda sem allra fyrst.
Undanfarna daga hef ég verið með slatta af hjartsláttartruflunum og með smá verki fyrir brjóstið. Ég hef verið gríðarlega máttlaus, og svimað nokkuð. Ákvað að fara og láta mæla blóðþrýstinginn í dag þar sem ég svitnaði við hverja hreyfingu og kom þá á daginn að enn er blóðþrýstingurinn allt of lágur. Minn góði læknir, Guðmundur, sagði að ég þyrfti að komast til Hróðmars sem allra fyrst og ætlaði að tala við hann um það og redda mér ítarlegri skoðun þar. Bíð bara eftir hringingu um að það sé komið að mér :)
Já, ég held alltaf að ég sé hólpinn og allt komið í lag. En þegar eitt er búið tekur annað við. EN maður tekur því sem manni er ætlað og brosir framan í heiminn :)
Later! Hafdís María
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.6.2009 | 13:47
Sigur og ekkert annað en sigur!
Góðar fréttir!
Fór í ökumat á föstudaginn og stóðst það! Gekk reyndar mjög vel og það er auðvitað ákveðinn sigur fyrir mig. Það eru þessir sigrar sem maður upplifir sem eru svo mikilvægir fyrir mann og ég er svo heppin að hafa upplifað þá marga undanfarna mánuði eftir að hafa upplifað einn ansi ósanngjarnan ósigur.
Bati er sigur!! Auðvitað er ég ekki fullfrísk en það sem ekki hefur gengið til baka eru hlutir sem ég get vel lifað með! Þannig er nú það og það hefur maður sætt sig við. Ég lít þannig á að ég standi uppi sem sigurvegari eftir allt saman!!
Ég er heppin, það er bara svo einfalt.
Þetta verður síðasta færsla mín hér í bloggheiminum. Þeim hef ég safnað í möppu og commentunum og það er svo frábært að lesa commentin sem ég hef fengið frá degi eitt, þegar Erla setti þessa síðu á laggirnar og þessi komment hafa stutt mig og styrkt. Það er svo gott að þegar eitthvað bjátar á að það eru margir sem hugsa til manns og veita manni styrk.
Þakka ykkur fyrir og NJÓTIÐ LÍFSINS!! HVER DAGUR ER GJÖF OG LÍFIÐ ER BESTA GJÖFIN !
Ykkar, Hafdís María
PS....ef þið sjáið grænan Isusu Trooper á vegunum, VARIÐ YKKUR!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (9)
4.6.2009 | 14:02
Allt og ekkert
Mér datt nú bara í hug að rita hér nokkrar línur. Annars er gott að frétta og heilsan bara þokkaleg. Var að koma úr sjúkraþjálfun og mér finnst jafnvægið orðið þokkalegt bara. Það má líka að mörgu leiti þakka hjólinu mínu. En ég er farin að hjóla hér í sveitinni eins og eldibrandur sem er mjög gott fyrir mig. Æfir líka jafnvægi, samhæfingu, styrk og fl. Mjög hollt fyrir alla að hjóla. Ég er passasöm kona og nota að sjálfssögðu hjólahjálm, því það er ekki hættulaust að detta á hausinn þegar maður er á sterkri blóðþynningu. En ekki þýðir að vefja sig inn í bómul.
Talandi um blóðþynninguna þá er hún mjög rokkandi. Þannig er það og mun verða, ég fer á hverjum mánudagsmorgni í blóðprufu til að láta mæla þynninguna fyrir vikuna. Ég tek aldrei sama skammtinn frá viku til viku. Núna var hringt í mig og á ég að taka þrjár töflur alla daga vikunnar og fjórar á sunnudag, en í síðustu viku var það nú allt annar matseðill ;) En eins og doksi minn sagði þá væri óskandi að ég fái að komast á annarskonar blóðþynningu en Kóvar, einhverja aðra tegund og vægari, kóvarið er svo öflug þynning. En allt fyrir að fá ekki annan blóðtappa!!!! Held reyndar að ég sé alveg sloppin þar sem hjartað er komið í lag :)
Allt blómstrar í sveitinni, blómin í garðinum hafa kíkt upp, grasið sprettur og líklega verður farið að slá í næstu viku, lömbin komin út á tún, þar á meðal, þrí og fjórlembingarnir hans Ívars Ara. Folöldin líta dagsins ljós hvert á fætur öðru, kýrnar löngu komnar út, sonurinn kominn í sumarfrí og allt í blóma lífsins.
Ég er mikið að hugsa um að panta að fara í ökumat núna fljótlega. Sjónin hefur ekki lagast en það er þó séns að ég fái bílpróf aftur!! Vona það allavega, en ef ekki þá bara er það svoleiðis og allt í lagi með það. Kemur bara í ljós!
Sumarkveðjur, Hafdís María
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:09 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2009 | 13:54
Blessuð blíðan...
Ekki er hægt að kvarta yfir veðrinu, bara stuttbuxna og hlýrabolaveður. Yndislegt alveg :)
Í morgun brunuðum við til höfuðborgarinnar, nánar tiltekið í Vesturbæinn á stofuna hjá hjartalækninum mínum Hróðmari. Fyrir það fyrsta vil ég segja að Hróðmar er yndisleg mannvera, heppin var ég að fá að vera sjúklingurinn hans. Bara frábær læknir.
Nú, ég fór í hjartalínurit, ómskoðun á hjarta og fl. Viðurkenni að það var aðeins farið að fara um mig þegar á þessu stóð. En guði sé lof, var útkoman GÓÐ!!
Hann sýndi mér hnappinn sem lokar opinu á milli hjartahólfana. Hann sagði hann sitja vel í opinu og loka því algjörlega! Við vorum afar ánægð að heyra þetta :) Hann sagðist sjálfur vera mjög ánægður með þetta allt saman og sagði þetta líta mjög vel út :)
Í sambandi við hjartsláttatruflanirnar sem komu í nokkra daga á eftir aðgerð og svo eftir dágott hlé enn aftur um daginn og stóð í ca. viku, er um þær að segja að ef þær koma aftur á ég að fara í hjartalínurit. Þær ættu að vera hættar núna miðað við tímann sem liðinn er frá aðgerð. Ef þær koma aftur fer ég í skoðun og hann metur hvort þær séu eðlilegar eða ekki. Ef þær eru ekki normal þá verð ég sett á eitthvað hjartalyf sem lagar. En við vonum að þetta sé bara búið núna og komi ekkert aftur ;)
Ég nefndi mígrenisköstin sem ég fékk svo oft um daginn við hann en þá kom í ljós að eftir svona aðgerð eins og ég fór í þá er það nokkuð algengt að fólk fái mígreni á eftir, mögulega í nokkrar vikur. Þannig að ég var pínu fegin að heyra það, því líklega er það orsökin á mígreniköstunum sem ég var að fá um daginn, ansi slæm. Nú hef ég ekki fengið mígreni í dágóðan tíma svo ég VONA að þau séu bara liðin tíð :)
Annars á ég að mæta í hjartaskoðun gegnum vélinda í haust og þá, EF allt gengur og fer sem horfir, er ég bara útskrifuð frá honum og verð frjáls eins og fuglinn ;)
Kveðjur úr góða veðrinu!
Hafdís María
Bloggar | Breytt s.d. kl. 13:58 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
8.5.2009 | 08:44
Alltaf eitthvað nýtt...
Góðan daginn gott fólk.
Í gær fór ég til hans Einars, heila og taugasérfræðings sem sá alveg um mig þegar ég fékk blóðtappann þann 16. október sl. Hef ekki hitt hann sjálfan síðan í nóvember, því það var annar sem var með mig þegar ég lagðist inn núna í mars. Þetta var pínu fyndið, hann kallaði mig inn á stofuna sína og við gengum inn. Hann horfði stíft á mig og sagði eftir svolitla stund, þig hef ég nú aldrei séð áður!! Leit svo á Örvar og hugsaði sig eitthvað betur um. Svo sagðist ég nú aðeins kannast við kauða, þá kváði hann og sagði: "Ertu orðin svona brött"!!! "Ég þekkti þig bara ekki nema í rúmi í sjúkrahúsfötum" hehheh. En hann tjáði okkur að hann hefði verið mjög hræddur um að jafnvægið myndi ekki komast í það lag sem það er í. Hann var dauðhræddur um að það yrði í raun aldrei í lagi. Var mjög ánægður að sjá það og sagði jafnframt að það væri bara kraftaverk að ég væri svona brött og gæti gengið um án nokkrus stuðnings. Hann sagði líka að ég væri dæmi um það hvað ungt fólk næði sér miklu betur á strik. Þetta eru góðu fréttirnar.
En slæmu fréttirnar eru kannski þær að fyrst að dofinn mikli og sjónsviðsskerðingin hefur ekki lagast neitt(meira að segja aukist) þá eru líkurnar afar litlar á að það sé eitthvað sem muni nokkurntíman lagast. Það sem gengur til baka, gengur til baka fyrstu vikur og mánuði eftir áfallið en núna eru um 6 mánuðir síðan það reið yfir. Ástæðan fyrir dofanum sterka er að taugabrautir eru skaddaðar eftir áfallið. Því verður ekki breytt. Þessu er vissulega erfitt að kyngja!
EN ég er á lífi, ég er ekki lömuð, ég er ekki blind, ég hef náð að læra að ganga upp á nýtt og þarf engin hjálpartæki til þess, ég hef svo margt sem ég get þakkað fyrir. Maður lærir að lifa með dofanum, vonandi að fullu, og sjónsviðsskerðingunni og VONAR að þrekið komi til baka með þjálfun en það tekur tíma að vinna það upp og verður ekki gert á nokkrum dögum heldur á mörgum árum. Hvort fyrra þrek náist nokkurtíman getur engin sagt til um. Hann sagði áfallið sem ég lenti í hafa verið gríðarlegt og eftirstöðvarnar sem eftir eru mjög ósýnilegar, þ.e. dofinn, sjónin og þrekleysið þar fremst í flokki. Ég yrði að taka mér þá hvíld sem ég þyrfti, úthaldið við öll verkefni er skert jafnframt einbeiting. Það hef ég fundið fyrir í náminu, get bara unnið í vissan tíma og er þá algjörlega búin á því. Þá er mikilvægt að hvíla sig og hlusta á líkamann! Þessar ósýnilegu eftirstöðvar eru sannarlega hamlandi og erfiðar viðureignar.
Þannig að hann var mjööög ánægður að sjá mig á fótum og þetta sterka því hann óttaðist um jafnvægið. Enda gat ég ekki gengið í marga daga eftir áfallið og var í rauninni kennt að ganga upp á nýtt, eins furðulegt og það nú hljómar.
Um höfuðverkinn og mígrenið sagði hann að ef mígrenið væri ekki bara hryna sem kemur og fer þá ætlar hann að setja mig á lyf sem fyrirbyggir mígreni. Fyrst ætlum við að sjá til hvort þetta sé ekki eitthvað sem líður hjá. Núna eru nokkrir dagar frá síðasta mígrenikasti. 7-9-13, vonum að það líði hjá allt. Um höfuðverkinn sagði hann ástæðurnar geta verið fjölmargar. En klárlega þarf að vinna í vöðvabólgunni sem er ansi mikil sem er mjög líklega að valda mér m.a. höfuðverkjaköstum.
EN það er ekki öll von úti ennþá, ég ætla ekki að útiloka að dofinn minnki og að sjónsviðsskerðingin gangi eitthvað til baka. Það getur allt gerst! Held ég hafi rekið mig á það nú þegar!!
Ég er alltaf annað slagið að læra, ætla að reyna að skila af mér verkefnum núna í maí sem ég hafði fengið frest á. Lokaritgerðin liggur óhreyfð en ég geri mér vonir um að skila henni fyrir næstu jól. Þannig að ég nái að útskrifast sem þroskaþjálfi í febrúar 2010.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 09:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (8)
5.5.2009 | 17:45
Fréttakorn
Hef orðið vör við mótmæli vegna síðustu færslu um bloggleysi, en lofa að koma með eina og eina færslu svona þegar eitthvað er í fréttum
Mígrenið er í lægð núna, en fékk reyndar mígrenikast síðast í fyrradag. Stundum koma tvö í röð, þ.e. þegar ég er að jafna mig á einu mígrenikasti kemur annað í kjölfarið. Taugalæknirinn sem var með mig í fyrra skiptið á B-2 vill að ég taki heldur Parkódín forte en mígrenilyf. Þannig að það verður að duga. Annars er ég uppfull að höfuðverk nærri daglega, þannig að verkjalyfin sem ég var svo fegin að geta hætt að taka eru nú orðin í daglegri inntöku þessa dagana, sem mér finnst ekki nógu gott, en koma tímar og koma ráð Annars fer ég núna á fimmtudag til taugalæknisins í tékk. Svo til Hróðmars 18. maí.
Ef ég fæ einhverjar merkilegar upplýsingar hjá Einari eða Hróðmari skelli ég nú inn færslu.
Kveðja, Hafdís
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:51 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (5)