8.5.2009 | 08:44
Alltaf eitthvað nýtt...
Góðan daginn gott fólk.
Í gær fór ég til hans Einars, heila og taugasérfræðings sem sá alveg um mig þegar ég fékk blóðtappann þann 16. október sl. Hef ekki hitt hann sjálfan síðan í nóvember, því það var annar sem var með mig þegar ég lagðist inn núna í mars. Þetta var pínu fyndið, hann kallaði mig inn á stofuna sína og við gengum inn. Hann horfði stíft á mig og sagði eftir svolitla stund, þig hef ég nú aldrei séð áður!! Leit svo á Örvar og hugsaði sig eitthvað betur um. Svo sagðist ég nú aðeins kannast við kauða, þá kváði hann og sagði: "Ertu orðin svona brött"!!! "Ég þekkti þig bara ekki nema í rúmi í sjúkrahúsfötum" hehheh. En hann tjáði okkur að hann hefði verið mjög hræddur um að jafnvægið myndi ekki komast í það lag sem það er í. Hann var dauðhræddur um að það yrði í raun aldrei í lagi. Var mjög ánægður að sjá það og sagði jafnframt að það væri bara kraftaverk að ég væri svona brött og gæti gengið um án nokkrus stuðnings. Hann sagði líka að ég væri dæmi um það hvað ungt fólk næði sér miklu betur á strik. Þetta eru góðu fréttirnar.
En slæmu fréttirnar eru kannski þær að fyrst að dofinn mikli og sjónsviðsskerðingin hefur ekki lagast neitt(meira að segja aukist) þá eru líkurnar afar litlar á að það sé eitthvað sem muni nokkurntíman lagast. Það sem gengur til baka, gengur til baka fyrstu vikur og mánuði eftir áfallið en núna eru um 6 mánuðir síðan það reið yfir. Ástæðan fyrir dofanum sterka er að taugabrautir eru skaddaðar eftir áfallið. Því verður ekki breytt. Þessu er vissulega erfitt að kyngja!
EN ég er á lífi, ég er ekki lömuð, ég er ekki blind, ég hef náð að læra að ganga upp á nýtt og þarf engin hjálpartæki til þess, ég hef svo margt sem ég get þakkað fyrir. Maður lærir að lifa með dofanum, vonandi að fullu, og sjónsviðsskerðingunni og VONAR að þrekið komi til baka með þjálfun en það tekur tíma að vinna það upp og verður ekki gert á nokkrum dögum heldur á mörgum árum. Hvort fyrra þrek náist nokkurtíman getur engin sagt til um. Hann sagði áfallið sem ég lenti í hafa verið gríðarlegt og eftirstöðvarnar sem eftir eru mjög ósýnilegar, þ.e. dofinn, sjónin og þrekleysið þar fremst í flokki. Ég yrði að taka mér þá hvíld sem ég þyrfti, úthaldið við öll verkefni er skert jafnframt einbeiting. Það hef ég fundið fyrir í náminu, get bara unnið í vissan tíma og er þá algjörlega búin á því. Þá er mikilvægt að hvíla sig og hlusta á líkamann! Þessar ósýnilegu eftirstöðvar eru sannarlega hamlandi og erfiðar viðureignar.
Þannig að hann var mjööög ánægður að sjá mig á fótum og þetta sterka því hann óttaðist um jafnvægið. Enda gat ég ekki gengið í marga daga eftir áfallið og var í rauninni kennt að ganga upp á nýtt, eins furðulegt og það nú hljómar.
Um höfuðverkinn og mígrenið sagði hann að ef mígrenið væri ekki bara hryna sem kemur og fer þá ætlar hann að setja mig á lyf sem fyrirbyggir mígreni. Fyrst ætlum við að sjá til hvort þetta sé ekki eitthvað sem líður hjá. Núna eru nokkrir dagar frá síðasta mígrenikasti. 7-9-13, vonum að það líði hjá allt. Um höfuðverkinn sagði hann ástæðurnar geta verið fjölmargar. En klárlega þarf að vinna í vöðvabólgunni sem er ansi mikil sem er mjög líklega að valda mér m.a. höfuðverkjaköstum.
EN það er ekki öll von úti ennþá, ég ætla ekki að útiloka að dofinn minnki og að sjónsviðsskerðingin gangi eitthvað til baka. Það getur allt gerst! Held ég hafi rekið mig á það nú þegar!!
Ég er alltaf annað slagið að læra, ætla að reyna að skila af mér verkefnum núna í maí sem ég hafði fengið frest á. Lokaritgerðin liggur óhreyfð en ég geri mér vonir um að skila henni fyrir næstu jól. Þannig að ég nái að útskrifast sem þroskaþjálfi í febrúar 2010.
Athugasemdir
Já þetta er bæði slæmar og góðar fréttir þykir mér, en alveg finnst mér frábært hvað þú ert jákvæð og það er held ég það sem mestu máli skiptir í átt að meiri bata. Taktu þér alla þá hvíld sem þú þarf Hafdís mín.
Svava frænka og co (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 09:36
Mikið er gott að heyra hvað þú ert brött og jákvæð :) Eins og þú segir sjálf allt getur gerst! Mundu að hlusta á líkamann og taka einn dag í einu. Það er alveg ótrúlegt hvað þú ert búin að ná þér vel á strik,og þú ert ótrúleg...mundu það :)
knús..Hulda
Hulda (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 12:03
Elsku Hafdís. Þú sérð það að hann bjóst nú ekki við svona miklum bata af því hann þekkti nú ekki harðjaxlinn hana systur mína! Sérstakt knús frá Alexander Degi og Ágústi Aroni. Og auðvitað frá okkur Badda. Sjáumst nú brátt aftur. Komum líklega í heimsókn eftir sauðburð öll fjölskyldan. :) :) Kveðja, Þórunn
Þórunn systir (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 17:39
Stórt knús í sveitina;)
Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 18:32
já bæði góðar og slæmar fréttir. En verum glöð með allar góðar fréttir sem við fáum og látum þær slæmu ekki draga okkur niður. Bara frábært hvað þú hefur náð þér fljótt og vel og svo er bara að halda áfram að berjast :)
Bestu kveðjur Sibba
Sigurbjörg (IP-tala skráð) 8.5.2009 kl. 19:19
Já þarna kom nú ljós hverslags hörkutól þú ert, þú ert svo dugleg elsku Hafdís mín, verum þakklát fyrir það góða og tökum á hinu svona í rólegheitunum, ég hef allavega fulla trú á þér.
Knús í sveitina frá okkur hér á Stöddanum.
Bogga Jóna (IP-tala skráð) 9.5.2009 kl. 10:23
Hafdís þú ert lang duglegust mundu það
Kveðja
Erna
Erna (IP-tala skráð) 10.5.2009 kl. 12:46
þú ert alveg rosalega FRÁBÆR og ég er svo ánægð með hvenig þú tekur á þessu verkefni sem þér hefur verið sett fyrir af einhverjum ástæðum. Þú ert algjör hetja og rosalega dugleg. Gangi þér sem allra best áfram elsku Hafdís
Berglind Elva (IP-tala skráð) 16.5.2009 kl. 13:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.