Hann afi minn...

Í dag þann 11. desember er afmælisdagur afa míns og afa hans Örvars. Því miður fékk ég ekki að kynnast afa hans Örvars nógu vel, hitti hann í örfá skipti áður en hann kvaddi þennan heim. 

En afa Gústa þekkti ég vel, hann bjó á sama hlaði og ég öll mín uppvaxtarár. Ég held að allir þeir sem kynntust afa Gústa eigi til skemmtilegar sögur af honum. Hann var svo yndislegur afi. Afi átti marga góða frasa í gegnum tíðina. Þessum gleymi ég aldrei: "Fjandinn í heitasta hoppandi helvíti, hvar er stafurinn minn?".  Mikið  hló maður oft af þessu og gerir enn þann dag í dag.

Afi var slæmur í mjöðm og notaðist við staf. Hann var hörkunagli sem kallaði ekki allt ömmu sína. Hann sótti alltaf kýrnar í Sigluvík á gamla, græna og góða pallbílnum sínum. Ég fór mjög oft með afa að sækja kýrnar, honum til aðstoðar. Stundum var ég alveg skíthrædd með honum og fannst ökulag afa gamla dáldið áhættumikið! Stundum fannst mér hann keyra OF nálægt kúnum þegar við keyrðum á eftir þeim heim, hann kunni sko að reka kýrnar sá gamli. Flautan stóð fyrir sínu og stundum stoppaði ég þann gamla þegar hann hafði haldið flautunni inni í meira en mínútu!! Man að hann var ekki ánægður einn daginn þegar flautan bilaði:)

Gamli, græni, góði pallbíllinn var notaður til ýmissa fleiri verka en að reka kýrnar. Afi var iðinn við að gá til kinda, bað mig mjög oft að koma með til að hjálpa sér og ég fékk stóran hnút í magann þegar hann keyrði upp á hraukinn við skurðinn til að fá yfirsýn yfir skurðinn, kom það fyrir að við fundum kind ofan í skurðinum og kom þá stafurinn til góðra nota, sérstaklega ef um hyrnda kind var um að ræða.

Það er eftirminnilegt að hugsa til þess þegar afi rakaði saman heyjinu, nú á gamla, græna og góða pallbílnum með múgavélina aftaní. Maður var oft með þeim gamla í pallbílnum og það var margt spjallað og sagði hann mér mikið frá gamla tímanum, sem mér fannst gaman að heyra um. En hann tók pásur og hlustaði á fréttirnar, veðrið og dánafregnir. Útvarpið náðist ekkert alveg sérlega vel, dáldið mikið suð og surg...Þá bara hækkaði sá gamli dálítið rösklega og hávaðinn var nokkuð mikill!

Afi fylgdist alltaf með því þegar álftirnar voru komnar og komnar með unga,alltaf á sama stað ár eftir ár, við fórum saman í bíltúr út að Klastbarða til að sjá ungana og telja þá. Stundum kíktum við með kíkirnum hans og dáðumst að fallegu ungunum. 

Ökulagið hans afa breyttist eftir því sem hann varð eldri. Keyrði oft á 20 km. hraða og var á ca. 4000 snúningum... Hann fór stundum í Hvolsvöll og við heima vorum með hnút í maganum...Honum fannst hann fínn bístjóri og gat alveg keyrt þrátt fyrir háan aldur...En við vorum dauðhrædd um að eitthvað kæmi fyrir. Eg var alltaf fegin þegar sá græni renndi aftur í hlaðið eftir kaupstaðaferðinar. Oftar en ekki fékk maður þá bláan Opal eða Bounty og eina kók! Góðmennska afa var mikil.

Jólin voru komin þegar afi var búinn að kaupa mandarínurnar og Maltið. Maður kom tvisvar sinnum oftar í heimsókn til afa á þeim tíma. Hann geymdi það inn í geymslu og hún var öllum opin. Seint á aðfangadagskvöld hittust svo allir í gamla bænum og áttu notalegar stundir saman.

Ég man eftir mörgum ótrúlega skemmtilegum ævintýrum sem við afi áttum saman, þau voru öll skemtileg!

Afi veiktist og lá á Sjúkrahúsi Suðurlands á Selfossi um nokkurt skeið. Á þeim tíma leigðum við Örvar íbúð á Selfossi, ég var í skóla og hann að vinna. Við fórum til afa á hverju kvöldi og húmorinn leyndi sér ekki. Þakklætið var líka mikið alltaf. Svo keypti ég malt handa honum annað slagið og þá var sá gamli himinlifandi:)

Afi dvaldi á dvalarheimilinu Lundi undir það síðasta þar sem hann lést seinni hluta árs 1999. Var jarðaður í desember. Ég var þá ófrísk af honum Ívari Ara og vildi að hann hefði vitað það áður en hann dó. Hann var orðinn svo utan við sig, kannski hefði hann ekki meðtekið það...

Besti afi í heimi, hann afi Gústi!!

_________________________________________________________________

Ég er stabíl, dofinn ekki minnkað en er hress og kát og bjartsýn!

Knús, Hafdís María

 

 

 


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 identicon

Hefuru hugsað þér að gefa út bók um afa?....... Það er mín tillaga;)

Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 15:40

2 identicon

Þú ert allvega pottþétt ráðin þegar ég gef út mína ævisögu;)

Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 15:44

3 identicon

Þetta er svo skemmtileg færsla hjá þér Hafdís. Það liggur við að ég heyrði röddina í afa þegar ég les þetta.

Gangi þér súper vel á Grensás. Það er svo stutt þangað til þú kemst heim.

Kv. Linda Björk og co.

Linda Björk Sigurðardóttir (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 16:05

4 identicon

Þetta er sko vel gerð  lýsing hjá þér á afa gamla :) Takk fyrir þetta - það var svo margt sem rann í gegnum huga manns um afa við að lesa þetta. Kveðja Eydís 

Eydís Dögg Eiríksdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 16:20

5 identicon

Frábær færsla um hann afa þinn, ég sé hann ljóslifandi fyrir mér þegar ég les þetta. Hann var alveg einstakur .

Það er alltaf gaman að fylgjast með þér hér á blogginu, er orðin fastagestur þó ég sé ósköp löt að kvitta. Gott að sjá að allt gengur vel og hvað þú ert jákvæð og dugleg. Þú ert frábær.

Kveðjur og knús Lollý frænka

Ólafía B Ásbjörnsdóttir (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 16:50

6 identicon

Dásamleg lýsing á afa!!  Ég man líka eftir þegar lyklakippan slóst alltaf í mælaborðið þegar við sátum í græna pallbílnum að raka saman.  Hljóðið var nefnilega dálítið þreytandi..... Það var nú líka gaman þegar samnemendurnir í KHÍ fóru að spyrja okkur af hverju við blótuðum svona mikið frænkunar.  Við horfðum hvor á aðra og sögðum síðan: afi okkar.

 Kv. Sigurbára

Sigurbára (IP-tala skráð) 11.12.2008 kl. 21:16

7 identicon

Hæ hæ

Gaman að þessu, þekkti afa þinn (og Sævars) að vísu ekki neitt, en man eftir græna bílnum og ökulaginu híhíhí svo er ég líka farin að skilja betur og betur blótsyrðin (og fjölda þeirra) sem notuð eru oft á mínu heimili :) .  Gaman að því að móðurafi minn ætti einmitt afmæli í dag líka.

Vona að allt gangi vel hjá þér Hafdís, mér sýnist allavega ganga mjög vel miðað við skrifin hjá þér.

Kveðjur

Sóley og co.  

Sóley (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 00:59

8 identicon

Hæ Hafdís,

Gaman að lesa þessa færslu frá þér. Ég les skrifin þín reglulega en reyni að kvitta, þegar ég hef tíma. Mér varð nú hugsað til afa míns í Dufþaksholti þegar ég las þetta

En gangi þér vel. Með þessu áframhaldi er ég bjartsýn á að þú getir tekið eitt til tvö dansspor með mér á þorrablótinu í Njálsbúð. Ég hugsa ekki um annað en þorrablót núna btw.

Kveðja Mæja pæja 

María Garðarsdóttir (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 09:51

9 identicon

Skemmtilega afasaga hjá þér  ég er sammála að þú ættir að setja saman afabók.

Gott að heyra að þér líði vel,skellan mín.

knús í krús

Hulda (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 12:24

10 identicon

Helv. góð færsla hjá þér .

Þú tekur þetta á Sigluvíkurþrjóskunni

Kv Gústi Bró

Gústi (IP-tala skráð) 12.12.2008 kl. 14:48

11 identicon

Já ég segi eins og sagt hér að ofan. Ég sá bara afa þinn ljóslifandi fyrir mér :)

Man þegar ég kom í heimsókn til þín og við fórum yfir til hans að hann átti alltaf mjólkurkex sem við hámuðum í okkur áður en við fórum að gera eitthvað af okkur í fjósinu eða hoppandi á rúllunum hehe

Tinna (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 00:49

12 identicon

Svona sögur finnst mér alveg dásamlegar.  Þú segir svo ofsalega skemmtilega frá Hafdís að hann afi þinn birtist bara ljóslifandi fyrir augunum blótandi og keyrandi um hvippinn og hvappinn.  Ég þekkti afa þinn ekki neitt en þessi færsla fékk mig til að hugsa um afa minn sem dó 1999 og þegar róast í kringum mig ætla ég pottþétt að skrifa niður það sem ég man um hann.  Takk Hafdís mín fyrir frábæra færslu

Árný Lára (IP-tala skráð) 15.12.2008 kl. 12:46

13 identicon

hahha keyrði alltaf á miðjum þjóðvegi á 15 km/klst..:D

hann dó samt '99 er það ekki?

hildur ág (IP-tala skráð) 18.12.2008 kl. 13:06

14 Smámynd: Hafdís María Jónsdóttir

Jú,auðvitað

Hafdís María Jónsdóttir, 20.12.2008 kl. 09:01

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband