29.11.2008 | 09:28
Home sweet home
Í dag er ósköp hefbundinn laugardagsmorgun, börnin að horfa á barnatímann í sjónvarpinu og ég bara vöknuð og reyndar ekki að læra en í tölvunni engu að síður;) Lífið um helgar er alltaf að færast nær okkar frábæra eðlilega lífi.
Ég fór í hjartaskoðun í gegnum vélinda í gær og gekk hún mjög vel, sem betur fer. Fékk kæruleysissprautu og töflur og var rammhálf á bekknum, hefðu þær nú haft vit á að gefa Örvari eins og eina líka þá hefðum við getað verið saman á spítalafyllerýi...smá grín....
Ég veit það orðið að maður verður að vera duglegur að gera grín af þessu öllu saman og geta hlegið þá gengur allt svo miklu betur. En við fyrstu sýn sást ekkert óeðlilegt við hjartað en læknirinn sagði að það væri samt eftir að lesa úr myndum. Fæ að vita meira um það eftir helgi.
Það er svo frábært fólk sem vinnur þarna á Grensás, þetta er fólk sem hefur komið mér á lappirnar aftur. Ég var svo viss um að líf mitt væri að enda þegar ég rankaði við mér á gjörgæsludeild Landspítalans, ég var í raun búin að kveðja fólkið mitt hér heima rétt áður en sjúkrabíllinn kom og sótti mig hérna heim. Það var svo ömurlegt, hugsandi um börnin mömmulaus... Þvílíkt sem flaug í gegnum huga minn á þessum örlagaríka og ömurlega degi. Reyndar byrjaði dagurinn eins og allir dagar, við Örvar vöknuðum saman, Ívar fór í skólabílinn og ég keyrði Soffíu Ýr í leikskólann og brunaði beint í Hvolsskóla í vinnunna. Fínn dagur, við Ingimar brösuðum heilmargt saman. Nú svo deif ég mig heim því Ívar Ari ætlaði í fyrstu helgarheimsóknina sína til Gústa og Erlu. Ég var reyndar að hugsa um að vera heima og læra á meðan Örvar færi með hann og ætlaði hann að taka Soffíu með en ákvað að drífa mig með.
Ég var nýkomin heim í Akurey með bæði börnin í bílnum til að sækja Örvar.Tók þau með mér úr skólanum og leikskólanum. Krakkanir komu inn að skipta um föt og Örvar var að fara með þau aftur inn í bíl þegar ég fékk svakalegt suð fyrir eyrun, svima og varð máttlaus. Lak á gólfið og náði að kalla strax á Örvar...er svo fegin að hafa ákveðið að fara með þeim, annars hefði ég líklega verið ein þegar þetta gerðist. Örvar sá fljótt að eitthvað alvarlegt var að gerast. Ég missti mátt í vinstri hendi, vinstri fæti og var alveg óskiljanleg í tali. Gólaði á Örvar að sækja símann sem hann skildi og gerði grey kallinn....Ætlaði sko sjálf að hringja í Guðmund lækni, ýtti á vitlausa takka og sá svo lítið...Þannig að Örvar hringdi strax í Guðmund og þrjóskukellingin ég ætlaði að tala sjálf við hann en hann skildi mig ekki...enda var ég svo dofin og engin leið að skilja mig. Þá greip Örvar símann af þrjósku kellunni;) og bað Guðmund um sjúkrabíl STRAX og sjúkrabíllinn fór strax af stað......Hvað ætli maður sé búin að segja börnunum oft eða hugsa sjálfur oft að ef eitthvað alvarlegt skeður þá hringi maður í 1 1 2. En á ögurstundu hugsar maður ekki rökrétt...EN sjúkrabíllinn var strax sendur af stað svo það breytti ekki öllu í þetta skiptið.
Örvar hringdi í mömmu meðan beðið var eftir bílnum og Happó kom líka, þau stumruðu öll yfir mér. Pabbi kom og tók krakkana yfir til sín.
Hausverkurinn var bara hægra megin í höfðinu, óbærilegur sársauki, og máttleysið var bara vinstra megin. Blóðtappinn lenti hægra megin í heilanum og hefur það áhrif og afleiðingar á vinstri helming líkamans.
ææ, er að hugsa um að rifja þennan dag ekkert upp meir, en samt gott að vera búin að því.
NÚNA erum við Örvar að fara með Soffíu Ýr í fiðlutíma. Ég ætla bara að drífa mig með, hef bara gott af því að skakklappast með.
Ég er svo ánægð með hversu margir hugsa fallega til mín og sýna mikinn hlýhug í minn garð með kveðjum og öðru. Svo verða aðventutónleikar til styrktar mér um helgina og þar munu koma fram mikið af listafólki. Ég er svo orðlaus yfir miklum hlýhug í minn garð, veit ekki hvað skal segja bara...kom að því að ég yrði orðlaus...
1000 knús, Hafdís María í sveitinni
Athugasemdir
Home sweet home;) Flott blogg hjá þér sæta;)
Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 10:15
Kæra Hafdís meðan ég var að lesa sem þú skrifaðir þakkar maður guði að þú sért á lífi,þakka þér fyrir að deila því með okkur sem fylgjast með þér ef guð hefur verið einhverstaðar þá hefur hann verið með þér mín kæra á þessum erfiða degi.Nú stefnir allt í rétta átt og hver dagur er framför hjá þér og ykkur öllum,gangi þér vel Hafdís mín vonandi sjáumst við á tónleikunum,mig hlakkar mikið til að taka þátt í söngnum með þessu frábæra söngfólki,kær kveðja frá okkur öllum.
Hildur Hildisey (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 12:03
Kæra Hafdís .Ég kíki hér inn á hverjum degi en viðurkenni að ég er ekki dugleg að kvitta ,en hugurinn er alltaf hjá þér og þínum og við erum svo glöð hvað allt gengur vel hjá þér . Bestu kveðjur og knús til þín Örvars og krakkana . Herborg og Indriði
Herborg og Indriði (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 13:12
Elsku Hafdís og fjölskylda
Vildi bara kvitta fyrir mig, baráttukveðjur til ykkar!!
Kveðja Helga
Helga Stefánsdóttir (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 15:52
Þú ert svo frábær Hafdís:)
Þú ert alveg svakalega sterk og jákvæð, ég held að það skipti miklu máli að vera jákvæður. Það er svo frábært að sjá hvað þér fer hratt fram. Haltu áfram á þessari braut sæta mín
Kveðja
Erna
Erna (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 16:54
Elsku Hafdís
takk fyrir að deila þessu með okkur, hefur ekki verið létt. Þú ert svo jákvæð og mikil hetja. Kíki inn á síðuna þína á hverjum degi til að fylgjast með þér. Hugur minn er alltaf hjá þér og bið fyrir þér á hverju kvöldi. Baráttukveðjur Guðrún Steinars
Guðrún Steinars (IP-tala skráð) 29.11.2008 kl. 21:10
Elsku Hafdís.
Takk fyrir að deila þessu með okkur en nú skaltu bara losa þig við allar minningar um þennan dag og hugsa fram á við. Lífið blasir við þér og þetta er allt á réttri leið hjá þér. þú átt frábæra fjölskyldu og vini sem allir hugsa hlýtt til þín og styðja þig hvort sem það er með nærveru eða í huganum. Haltu áfram á sömu braut og áður en þú veist af þá verðuru orðin söm á ný.
Vonandi kemst ég á tónleikana en ef ekki þá hugsa ég bara því meira til þín á sunnudagskvöldið.
þín frænka Sigurbjörg (það biðja allir að heilsa hérna og Afi Jónas einnig)
Sigurbjörg Borgþórsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 01:04
Þú stendur þig eins og hetja en ekki vil eg hitta Örvar og mömmu þína aftur í þeim sporumsem þau voru í þegar þú komst á spítalann eins og þú varst mikið veik en það er svo gott að finna stuðning þegar etthvað er að þettað er nú liðið og bjartari dagar frammundan HAFÐU ÞAÐ GOTT KV Rannveig
Rannveig Gunnlaugsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 11:37
Hæ Skvís
Takk fyrir síðast það var frábært að hitta þig, mikið gátum við hlegið og bringan var fín þrátt fyrir óþólinmæði Lóu hahahah
Ætla að skella mér á tónleikana í kvöld :)
Var Brokkkórinn ekki góður :)
Kv Rangheiður
Ragnheiður (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 11:58
Sæl Hafdís,
það er aldeilis raun sem þú ert að ganga í gegnum, ég veit fyrir víst að á Grensás ertu á besta stað, allt til fyrirmyndar í allri þjálfun og starfsfólkið frábært.
gangi þér sem allra best, hefði svo gjarnan viljað mæta á tónleika í kvöld en kemst því miður ekki.
bestu kveðjur í sveitina
Berglind Elva Tryggvadóttir
Berglind Elva (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 12:32
Þú stendur þig eins og hetja skvís, engin spurning um það, haltu áfram á sömu braut. Fylgist alltaf með þér. "heyrumst" á msn inu þegar lífið hjá þér fer að falla í eðlilegar skorður
kv.
obba
Obba (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 18:03
Hæ elsku Hafdís mín, ég sit hér með tárin í augunum og lifi mig inn í söguna þína. Sem betur fer hefur guð ákveðið að leyfa þér að vera hjá okkur áfram. Það ber að þakka. En mikið ertu dugleg og sterk, haltu áfram á sömu braut. Mikið vildi ég að við værum nær ykkur svo við gætum eitthvað aðstoðað. En svona er þetta nú, ekki á allt kosið. Knús og kram frá okkur.
Svava frænka og co (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 19:39
Sæl Hafdís.
Það er gott að þú lítur björtum augum á þessa miklu raun þín.
Ég vil hrósa þér fyrir hvað skrifin þín hérna eru góð. Vel máli farin og allt kemur svo vel fram sem þú vilt koma til skila;)) Sendi þér baráttukveðjur Inga
Ingibjörg Guðmundsdóttir (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 19:44
Tek undir með Rannveigu og persónulega hef ég aldrei verið eins þung í spori og þegar ég fór upp á spítala þennan dag, en þegar ég hafði hitt þig fékk ég það strax á tilfinninguna að þú myndir spjara þig ágætlega þó að næstu daga á eftir hafi ég/við ekki verið alveg róleg heldur. Elsku Hafdís mín þú átt eftir að tækla þetta, það er ekki spurning;) Ég vil líka senda bestu kveðjur til allra á þessum dásamlegu tónleikum í kvöld;) Kv. Erla Guðfinna í Mosfellsbæ;)
Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 20:28
Elsku stelpan mín.
Það er svo gott að koma þessu frá sér eins erfitt og það getur verið, en það er eins og það létti helling á manni ef maður getur skrifað svona niður eða bara talað um það.
Mikið voru þetta fallegir tónleikar í kvöld og þú áttir þá alveg skilið.
Mundu bara að það er fullt af fólki sem vill styðja þig í einu og öllu og ekki vera feimin við að þiggja það.
Ég er aðeins símtal í burtu ef þig langar að spjalla.
Sjáumst þegar ég drusla mér í heimsókn ;)
Kv. Tinna
Tinna (IP-tala skráð) 30.11.2008 kl. 23:42
Sæl hörkutól.
Já það er alltaf erfitt að rifja upp leiðinlega atburði en jafnframt mikill léttir að koma því frá sér og þá veit mannfjöldinn hvernig þetta var. Heyri að það eru mikil framför hjá þér sem er náttúrulega bara frábær, halt þú og þið áfram á þessari braut.
Mér fannst sáta að komast ekki á tónleikana í gærkveldi, en hugur minn var allur hjá ykkur(hafði varla rænu að koma krökkunum í rúmið hugsaði svo stíft til ykkar hahaha).
Haltu áfram að vera svona bjartsýn og jákvæð, fer að kíkja á þig því ég tók til í skápnum hennar Ásrúnar Ýrar í gærkveldi:)
Baráttukveðjur til ykkra allra:)
Sigurbjörg og börn.
Sigurbjörg Stefánsdóttir. (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 09:00
Sæl aftur Hafdís mín. Ég hugsa svo stíft til þín núna þegar jólamánuðurinn er genginn í garð. Viltu vera svo væna að senda mér netfangið þitt, mig langar svo að senda þér nokkrar einkalínur. netfangið mitt er einbui10@simnet.is
Kv Svava og co
Svava frænka og co (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 10:56
Hæ skvísa
Mér fannst hrikalega leiðinlegt að komast ekki á tónleikana í gær en þú heldur bara tónleika fyrir mig þarna 2009, tekur luftguitar á hækjuna:)
Að lesa þetta svona á prenti gerir alvarleika þessa atburðar enn raunverulegri en áður. Þegar þú sagðir mér nákvæmlega sömu sögu þegar ég kom að heimsækja þig þá klæddir þú þetta í svo fyndinn búining því að fyrst og fremst ertu bara alveg magnaður húmoristi (sem er mikil hjálp núna) en það voru einhver kraftaverk að verki í kringum þig þennan dag, eins og t.d. að þú skildir ekki hafa verið ein.
Hafðu það sem allra allra best.. láttu mig vita ef þú átt laust síðdegi einhvern tímann og leiðist!! Þá kem ég með skólabækurnar í eftirdragi.. þær eru nældar á mig þessa dagana:)
knús og meiri knús
Árný Lára (IP-tala skráð) 1.12.2008 kl. 11:37
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.