23.4.2010 | 15:11
Reykjalundur, eldgos og útskrift :-)
Sé það á síðasta bloggi að ég ætlaði að vera duglegri að blogga ;)
Endurhæfingin á Reykjalundin hjálpaði mér alveg ótrúlega mikið. Hefði í raun aldrei trúað því hversu gott hún gæti gert mér. Ég fór eftir ákveðnu prógrami alla dagana og ég styrktist og þjálfaðist ótrúlega mikið á þessum 6 vikum. Ég græddi mikið á veru minni á Reykjalundi, þótt ég hefði auðvitað hvergi viljað vera nema heima ;) Tíminn flaug áfram og ég tel mig vera mjög heppna að hafa komist þarna inn. Svo kynnist maður alltaf nýju og nýju fólki. Kynnist fólki og sjúkdómum sem fer í reynslubankann.
Eldgosið hefur gert það að verkum að við höfum þurft að rýma í skyndi 3 eða 4 sinnum. Neita því ekki að þegar fyrsta sms-ið kom um að gos væri hafið í Eyjafjallajökli og við ættum að rýma, þá var heilmikið panik í gangi, svo þegar komið var í fjöldahjálparstöðina á Hvolsvelli kom fljótt í ljós að þetta var ekki eins alvarlegt og talið var í fyrstu. Ég er samt ánægð með hversu fljót við vorum að rýma, vorum á mjög góðum tíma. Á íbúafundunum sem haldnir hafa verið, áður en þetta kom til, þá var talað um að við hefðum 30 mínútur frá því að boðið kemur í símann, þangað til við yrðum að vera komin í Hvolsvöll. Þá held ég samt að miðað hafi verið út frá Kötlu gosi, það gæti tækið flóðið 30 mínútur að koma hér yfir Landeyjarnar. Síðasta rýmingin var þó sú hræðilegasta, en í sms-inu stóð að stórflóð væri að nálgast. Ekki var hægt að klára að mjólka kýrnar og var það þannig hjá flestum, bændur þurftu bara að fara út úr fjósi og beint upp í fjöldahjálparmiðstöð og láta skrá sig.
Hér eru myndir sem við tókum einn daginn.
Við höfum alveg sloppið við afleiðingar gossins en ömurlegt að vita hvernig náttúruöflin hafa farið með marga Eyfellinga. Vonandi er þessu bara að ljúka og að Katla sofi vært áfram.
Ég er að enda við lokaritgerðina mína og útskrifast 12. júní frá HÍ og get varla beðið eftir að verða Þroskaþjálfi!
Kveð að sinni!
Athugasemdir
Þú ert snillingur... frábært að þú sért að útskrifast:) Þetta prump úr Eyjafjallajöklu fer nú varla að stöðva þig heldur;) Knús, Systa
Þórunn systir (IP-tala skráð) 28.4.2010 kl. 18:34
Hver er duglegust ESSASÚ???
Erla Guðfinna (IP-tala skráð) 31.5.2010 kl. 17:48
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.